Landmælingar Íslands opna nýjar kortasjár og nýja Landupplýsingagátt

kortasjaÍ dag 15. desember 2016 opnuðu Landmælingar Íslands nýja kortasjá https://atlas.lmi.is/kortasja/ og örnefnasjá https://atlas.lmi.is/ornefnasja/ auk þess var opnuð ný Landupplýsingagátt https://gatt.lmi.is/geonetwork/ ásamt nýrri kortasjá Landupplýsingagáttar https://kort.lmi.is/. Kerfin eru byggð á opnum hugbúnaði, Oskari og GeoNetwork en Oskari er hannaður og þróaður af systurstofnun okkar í Finnlandi. GeoNetwork er opin hugbúnaður og á bak við hann eru mörg fyrirtæki í Evrópu. Við innleiðingu kerfanna hjá Landmælingum nýttist vel góður afrakstur af áralöngu samstarfi korta- og fasteignastofnana á Norðurlöndum.

Með nýju kortasjánum er þörfum snjall- og spjaldtölvunotenda mætt en fram til þessa hefur kortasjá Landmælinga ekki verið læsileg í slíkum tækjum. Nýja kortasjáin býður upp á marga nýja möguleika en nokkrar aðgerðir í eldri sjánni verða ekki í fyrstu útgáfu. Til að mæta þeim sem hafa nýtt sér eldri kortasjána mun hún verða aðgengileg fyrst um sinn á slóðinni http://atlas.lmi.is/kortasja-20161215.

Í nýju kortasjánni má m.a. sjá á korti hvar viðkomandi er staðsettur ef GPS viðmót er virkjað í snjalltækinu, eins er hægt að fá upplýsingar um gögn með því að smella á þau. Þá hefur örnefnaleit verið stórbætt í nýju sjánum og hægt er að skoða örnefni í örnefnasjánni með loftmyndum frá Loftmyndum ehf. Auk kortasjár Landmælinga Íslands var opnuð ný kortasjá Landupplýsingagáttarinnar en í henni verður veitt aðgengi að landupplýsingum, ekki aðeins frá Landmælingum Íslands heldur einnig öðrum stofnunum. Í nýrri kortasjá gáttarinnar verður hægt að skoða saman gögn frá mismunandi aðilum og um leið að fá upplýsingar um gögnin þar sem þau eru nú tengd við lýsigögn. Lýsigögnin eru vistuð í GeoNetwork. Þessi lausn gefur skráningaraðilum lýsigagna betra viðmót og fleiri möguleika en eldri hugbúnaður á samnýtingu gagna.

Með opnun á nýjum kortasjám og skráningarumhverfi fyrir lýsigögn sem öll eru byggð á opnum hugbúnaði, eru Landmælingar Íslands að ganga í gegnum miklar breytingar á upplýsingakerfum stofnunarinnar. Breytingarnar eru m.a. til að mæta þörfum laga um grunngerð stafrænna landupplýsinga, til að mæta kröfum vegna snjalltækja, til að mæta tilmælum stjórnvalda um opinn hugbúnað og hagræðingu en þó ekki síst til að mæta þörfum opinberra aðila til að veita samfélaginu aðgengi að gögnum sínum.