Lokaráðstefna SNIMar verkefnisins í Portúgal sem Landmælingar Íslands hafa verið aðilar að í gegnum þróunarsjóð EFTA, var haldin í Lissabon 19. apríl síðastliðinn. SNIMar verkefnið snýst um undirbúning á samþættingu landfræðilegra upplýsinga er lúta að stjórnun sjávar og strandsvæða en fjöldi opinberra stofnana og einkafyrirtækja kom að verkefninu.
Innan verkefnisins var unnið að grunngerð landupplýsinga er snýr að hafsvæðum heimsins, í þeim tilgangi að geta betur samnýtt gögn og upplýsingar sem til eru s.s. við stjórnsýslulegar ákvarðanir, en Portúgal hefur umráð yfir einu af stærstu hafsvæðum heims. Unnið var að gerð lykilorðalista sem margir aðilar komu að og getur nýst sem fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir. Þá var útbúin landupplýsingagátt sem opnuð var í tengslum við ráðstefnuna sem haldin var í Centro Cultural de Belem í Lissabon. Þar héldu forsvarsmenn SNIMar kynningar á verkefninu en auk þess héldu fulltrúi norska sendiráðsins í Portúgal, fulltrúi norsku kortastofnunarinnar Statens Kartverk og fulltrúi Landmælinga Íslands erindi fyrir hönd aðila EFTA sjóðsins. Í lok ráðstefnunnar undirrituðu ellefu fyrirtæki og stofnanir samstarfsyfirlýsingu um viðhald á grunngerðinni og áframhaldandi uppbyggingu hennar.
Landmælingar Íslands telja samstarf líkt og það sem unnið var að í SNIMar verkefninu eiga mikla tengingu við Íslenska stjórnsýslu og væri mögulega hægt að nýta útkomu þess í grunngerð landupplýsinga fyrir hafsvæðið umhverfis Ísland.