INSPIRE vinnur með þér

Notkun landupplýsinga er orðin mikilvægur þáttur við ákvarðanatöku stjórnvalda víða um heim. Vegna þessa er mikilvægt að aðgengi að gögnum sé ekki aðeins milli stjórnsýslu hvers lands heldur einnig milli aðliggjandi landa. Til að mæta þessari þörf hefur Evrópusambandið unnið að auknu aðgengi opinberra landupplýsinga og stöðlun þeirra, einkum til að nýta megi þær milli landa þegar mest liggur við.  Til að mæta þessum kröfum sambandsins hefur innleiðing INSPIRE tilskipuninnar verið mikilvægur þáttur og hafa Landmælingar Íslands leitt þá vinnu hér á landi.

INSPIRE tilskipunin hefur á að skipa fjölda gagnalíkana sem nota má til að auðvelda vinnu í öllum löndum Evrópusambandsins. Um er að ræða líkön sem gera ráð fyrir grunnnotkun en gert er ráð fyrir að þeim þurfi að breyta og aðlaga að sértækum þörfum hvers lands en gagnalíkön INSPIRE eru hönnuð þannig að hægt er að bæta við þau. Í myndbandi sem rannsóknarstofnunin JRC (Joint Research Centre), á vegum Evrópusambandsins, hefur sent frá sér má sjá dæmi um orkunýtingu bygginga og hvernig INSPIRE nýtist í slíkum aðstæðum. https://www.youtube.com/watch?v=Ftgy8uU9y2A&feature=youtu.be