Stjórnendur og sérfræðingar kortastofnana á Norðurlöndum hafa um langt árabil hist reglulega til að styrkja tengslin og deila reynslu og er í gildi samstarfssamningur um norrænt samstarf á sviði kortagerðar, landmælinga og fasteignaskráningu. Að þessum samstarfi standa korta- og fasteignastofnanir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, SvíÞjóð, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi og fer starfið fram í nokkrum vinnuhópum auk reglubundinn funda forstjóra og stjórnenda.
Dagana 21. -23. ágúst 2017 hittust stjórnendur norrænna kortastofnana í Noregi og báru saman bækur sínar. Það sem einkenndi fundinn var umræða um þær miklu breytingar sem nú eru að verða hvort heldur er varðandi tækni eða notkun gagna og upplýsinga. Mjög ör tækniþróun á sér stað og mun sú þróun halda áfram. Það er því mikil áskorun fyrir kortastofnanir að halda í við tæknilegar framfarir og ekki síður þær öru breytingar sem eru að verða á samfélaginu og kröfum notenda. Vegna þessa þá er lögð mikil áhersla á að útbúa stafrænar landupplýsingar og miðla þeim með einföldum hætti á netinu. Einnig hefur orðið mikil aukning á notkun gervitunglatækni til nákvæmra staðsetninga, við vöktun náttúrunnar og til kortagerðar og viðhalds gagnagrunna.
Kortastofnanirnar þurfa einnig í auknum mæli að takast á hendur nýjar áskoranir þegar þær þurfa að útbúa gögn sem eru til alþjóðlegrar notkunar, hvort sem er svæðisbundið t.d. í Evrópu eða hnattrænt. Gögn frá kortastofnunum á Norðurlöndum þurfa að smellpassa í hnattpúsl með samræmdum landupplýsingum og vefþjónustum frá öðrum þjóðum. Landupplýsingar munu t.d. leika mikilvægt hlutverk við innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 og við mælingar á framvindu þeirra.
Stjórnendur kortastofnana á Norðurlöndum vita að með öflugri norrænni samvinnu er hægt að gera enn betur. Norrænu stofnanirnar starfa að stórum hluta við sömu tegund framleiðslu og veita samsvarandi þjónustu og því eru ýmis tækifæri í stöðunni til hagræðingar og til að bæta þjónustuna. Á fundinum í Noregi var tekið mikilvægt skref með því að ákveða að skoða möguleika á sameiginlegri norrænni starfsemi og þjónustu við notkun á gervitunglatækni fyrir nákvæmar staðsetningar og vöktun.