Árleg INSPIRE ráðstefna haldin í Þýskalandi

Dagana 6. – 8. september var árleg ráðstefna Evrópusambandsins um INSPIRE tilskipunina haldin í Strassburg í Frakklandi. Yfirskrift ráðstefnunnar var að þessu sinni „Thinking out of the Box“. Ráðstefnuna sóttu rúmlega 1000 þáttakendur sem á einn eða annan hátt tengjast INSPIRE tilskipuninni s.s. notendur og framleiðendur landupplýsingar, stjórnendur opinberra- og einkafyrirtækja ásamt  sérfræðingum s.s. í stöðlum og vefþjónustum. Á ráðstefnunni voru, auk fjölmargra áhugaverðra erinda, kynningar á fyrirtækjum á sviði landupplýsinga sem m.a. sérhæfa sig í kröfum INSPIRE.

Þá voru auk ráðstefnunnar haldnar vinnustofur eða „workhop“ í bænum Kehl í Þýskalandi dagana 4. -5. september en áin Rín aðskilur Kehl frá Strassburg. Á vinnustofnunum var farið ýtarlega í tæknilega jafnt sem pólitíska þætti innleiðingarinnar.

INSPIRE ráðstefnan er haldin ár hvert og hafa starfsmenn frá Landmælingum Íslands sótt hana til að fylgjast með því hvernig innleiðingunni fleytir fram. Að þessu sinni sótti starfsmaður frá Landmælingum Íslands ráðstefnuna ásamt starfsmanni Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Ráðstefnan á hinsvegar fullt erindi til allra sem hafa með opinberar landupplýsingar að gera sem tengjast INSPIRE tilskipuninni í gegnum lög um grunngerð stafrænna landupplýsinga á Íslandi.  Fólk er hvatt til að fara inn á vef ráðstefnunnar og kynna sér þá fjölmörgu fyrirlestra sem haldnir voru. Þar ættu allir sem þekkja til landupplýsinga að finna eitthvað við sitt hæfi en nær allir fyrirlestrar voru teknir upp á myndbönd. Fyrirlestrana má finna á eftirfarandi vefslóð: http://inspire.ec.europa.eu/conference2017/overview

Helstu niðurstöður INSPIRE ráðstefnunnar að þessu sinni voru:

  • Aukinn áhugi er á stafrænum tengingum gagna þar sem INSPIRE gögn og aðrar landupplýsingar spila lykilhlutverk.
  • Innleiðing tilskipunarinnar er enn í fullum gangi og sífellt fleiri forrit og hugbúnaðir eru smíðaðir sem nýta sér þessar stöðluðu opinberu landupplýsingar.
  • Þrátt fyrir að INSPIRE sé umhverfistilskipun hefur hugmyndafræði hennar verið að teygja sig út fyrir umhverfisgeirann.
  • Svo virðist sem sömu vandamál séu til staðar við innleiðingu INSPIRE hvort heldur sem þjóðir/lönd séu stórar eða litlar. Á ráðstefnunni kom þó fram að mikil gangur er í innleiðingunni nú og virðist sem flestir séu að komast yfir þær tæknilegu hindranir sem voru í byrjun, enda um mjög flóknar tæknilegar lausnir að ræða. Nú sé hinsvegar vinnan fólgin í að ná saman enn meira af gögnum og að samtengja þau til að auka vægi þeirra enn frekar.
  • Gögn sveitarfélaga skipta miklu máli þegar kemur að því að ljúka innleiðingu INSPIRE en nokkur lönd Evrópu hafa unnið náið með sveitarfélögum vegna aðgengis að gögnum, enda er stjórnkerfi landa Evrópu mismunandi og sumstaðar liggur mikið magn af gögnum hjá sveitarfélögum.
Myndin er fengin að láni á vef ráðstefnunnar.