Nýtt nafnberakerfi fyrir örnefni

Ísland með örfnefnum

Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í söfnun og skráningu örnefna og er það eitt af stóru verkefnum Landmælinga Íslands. Árlega eru skráð um 10.000 ný örnefni í gagnagrunn stofnunarinnar og sér ekki enn fyrir endann á þeirri vinnu. Til að skrásetja, viðhalda, greina og birta þau örnefni sem safnast, þarf að flokka þau eftir kúnstarinnar reglum. Ótal leiðir má fara í þeim efnum en sú einfaldasta og algengasta er að skilgreina það fyrirbæri sem örnefnið vísar til, t.d. “foss” fyrir Gullfoss eða “stöðuvatn” fyrir Þingvallavatn. Gerð þannig lista er þó flóknari en flestir gætu trúað, sérstaklega vegna þess ótrúlega orðaforða sem við Íslendingar getum státað okkur af.

Í u.þ.b. áratug hefur svokallaður nafnberalisti Landmælinga Íslands verið notaður en hann hefur verið í sífelldri endurskoðun og telur nú um 150 nafnbera. Ljóst er að komin er brýn þörf á að endurskoða listann í heild sinni og hafa  starfsmenn Landmælinga Íslands skoðað hvaða kostir eru í stöðunni og hvernig nágrannaþjóðir okkar haga þessu hjá sér. Í gegnum gott tengslanet fengu Landmælingar Íslands  veður af  áströlsku verkefni sem nefnist “Australian National Placename Survey” eða ANPS. Frá árinu 2002 hafa sérfræðingar þar verið að þróa kerfi sem kom út 2015 og byggir á stigskiptri flokkun, þ.e. yfirflokkum og undirflokkum. Kerfið er mun umfangsmeira en gamli nafnberalistinn eða með um 530 flokkum (nafnberum) ásamt yfirflokkum, en um 400 eru notaðir þegar hann er staðfærður að íslenskum aðstæðum.

Starfsmenn Landmælinga Íslands vinna nú að því að þýða kerfið og staðfæra það að íslenskum aðstæðum, tengja það við orðalista og flokkana sem notaðar eru á sviðinu (GEMET, INSPIRE og ÍST-120) og hafa í því sambandi leitað aðstoðar hjá sérfræðingum annarra stofnana við þýðingar á sértækum fyrirbærum. Vert er að nefna að ekki er gert ráð fyrir að nýja kerfið verði flóknara en gamli nafnberalistinn, þó það sé stærra, þar sem það byggir á fyrrnefndri stigskiptingu sem leiðir skráningaraðila að viðeigandi nafnbera.

Gert er ráð fyrir að kerfið verði komið í notkun hjá Landmælingum Íslands á næstu mánuðum og eru áhugasamir þá hvattir til þess að rýna það og veita endurgjöf sé eitthvað sem má betur fara.