Jafnlaunavottun hjá Landmælingum Íslands

Snemma árs 2013 hófu Landmælingar Íslands innleiðingu á jafnlaunakerfi samkvæmt staðlinum ÍST 85:2012 og hlutu í framhaldi af því jafnlaunavottun VR. Landmælingar Íslands voru þar með fyrsta ríkisstofnunin til að hljóta jafnlaunavottun. Markmið jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum og tryggja fagleg vinnubrögð í þeim efnum. Síðar á árinu 2013 bauðst stofnuninni að taka þátt í tilraunaverkefni velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um innleiðingu á jafnlaunastaðlinum. Samhliða því hefur vottunarstofan BSI á Íslandi gert úttekt á vinnuferlum jafnlaunakerfisins og vottað árlega. Þannig hefur kerfisbundin vinna farið fram hjá Landmælingum Íslands frá árinu 2013, þar sem fylgst hefur verið með því að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað. Í desember 2016 fór síðast fram úttekt á jafnlaunakerfinu og maí í síðastliðnum fengu Landmælingar Íslands skírteini vottunarstofnunar BSI á Íslandi fyrir vottun jafnlaunakerfisins. Þegar er hafin vinna við endurskoðun á ferlum og innri úttekt jafnlaunakerfisins og gert er ráð fyrir að úttekt og ný vottun fari fram í janúar 2018.

Landmælingar Íslands hafa nú fengið heimild velferðarráðuneytisins til að nota jafnlaunamerkið, en merkið staðfestir að fyrirtæki og stofnanir hafi komið sér upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna eða aðra mismunun.