Staðkunnugir eru mjög mikilvægir við skráningu örnefna

Dyrfjöll. Mynd: Guðni Hannesson.
Dyrfjöll. Mynd: Guðni Hannesson.

Stuttu fyrir páska sendu starfsmenn Landmælinga Íslands 32 pakka með útprentuðum loftmyndum og örnefnalýsingum til skráningaraðila örnefna víðsvegar á landinu. Þessir aðilar hafa sýnt áhuga á að skrá örnefni jarða sinna í örnefnagrunn. Örnefnin birtast síðan í Örnefnasjá stofnunarinnar.

Hjá Landmælingum Íslands fer fram mikil vinna við söfnun og skráningu örnefna og hefur svo verið undanfarin ár. Vitneskja um staðsetningu örnefna er víða að tapast og því er brýn þörf á aðkomu eldri kynslóða við söfnun og skráningu þeirra til að bjarga þessum menningarlegu verðmætum frá glötun.

Við skráninguna er unnið með staðkunnugum heimamönnum víðsvegar á landinu og örnefni staðsett beint í örnefnagrunn eða á loftmyndir.  Í gömlum örnefnalýsingum jarða sem nafnfræðisvið Árnastofnunar geymir er að finna örnefnaskrár sem notaðar eru við skráninguna.  Mikilvægt er að hafa góðar loftmyndir þar sem heimamenn geta lesið í landið og lýsinguna og hafa Landmælingar Íslands aðallega notað loftmyndir Loftmynda ehf. við þá vinnu.

Örnefnalýsingar og útprentuð kort voru send til 32ja skráningaraðila fyrir páska.

Verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu er mikilvægur hluti af íslenskum menningararfi og mikilvægt er að tryggja að þessum menningararfi verið viðhaldið handa komandi kynslóðum. Fyrsta skrefið í því er að staðsetja örnefnin og hafa nú á annað hundrað þúsund nöfn verið staðsett í Örnefnagrunni en talið er að um 300 þúsund nöfn séu óstaðsett. Það er því mikil vinna fyrir höndum og vilja Landmælingar Íslands komast í samband við þá sem hafa þekkingu og áhuga á að skrá örnefni á sínu heimasvæði.