Aðgengi að upplýsingum um efni íslenskra korta- og loftmyndasafna er á ýmsum stöðum á netinu. Þorvaldur Bragason landfræðingur og upplýsingafræðingur hefur nú opnað vefinn landkonnun.is þar sem hann hefur safnað saman upplýsingum um helstu korta- og loftmyndasöfn á Íslandi og eru þau aðgengileg almenningi til skoðunar eða niðurhals. Þar má einnig finna vefslóðir fyrir aðgengi að upplýsingum um gervitunglagögn af Íslandi.
Markmið með vefnum er að auðvelda notendum landfræðilegra gagna að finna upplýsingar um kort, loftmyndir og gervitunglagögn af Íslandi í gegnum eina vefgátt á netinu. Sterk tengsl eru við vefgáttina landakort.is sem Þorvaldur hefur haldið úti frá árinu 2007, með megináherslu á að veita beinan aðgang á einum stað að sem flestum íslenskum kortasjám.