Ársþing Sameinuðu þjóðanna um landupplýsingar

Fundinn sóttu 400 fulltrúar frá yfir 100 þjóðlöndum.
Fundinn sóttu 400 fulltrúar frá yfir 100 þjóðlöndum.

Á áttunda ársþingi Sameinuðu þjóðanna um landupplýsingar (United Nations Global Geospatial Information Management, UN-GGIM) sem var haldið í New York 1.-3. ágúst 2018 var fjallað um samstarf þjóða heimsins við hagnýtingu margskonar landupplýsinga, s.s. stafrænna korta af sjó og landi, loftmynda, gervitunglagagna og staðtengdra tölfræðigagna, þvert á landamæri. Fundinn sóttu að þessu sinni yfir 400 fulltrúar frá yfir 100 þjóðlöndum auk fulltrúa fjölmargra samtaka og fyrirtækja sem starfa á þessu sviði 

Á fundinum var mikil samstaða um mikilvægi þessa samstarfs og greinilega er aukinn skilningur á því um allan heim að traust og aðgengileg korta- og landupplýsingagögn skipti miklu máli á fjölmörgum sviðum m.a. til að nýta á sviði skipulags, náttúruverndar og ferðaþjónustu einnig til að bregðast við aukinni tíðni náttúruhamfara og áfalla í heiminum s.s. jaðskjálfta, eldgosa, hamfaraflóða, skógarelda, hungursneyða og farsótta, þar sem mikilvægt er að vinna þvert á landamæri ríkja. Þá er aukinn skilningur á því að landupplýsingagögn stuðli að nýsköpun og hagvexti þar sem þau eru aðgengileg, örugg og uppfærð.

Landmælingar Íslands hafa verið virkur þátttakandi í þessu samstarfsverkefni frá upphafi, árið 2011 og fylgjast vel með framvindu þess. Stofnunin hefur fengið góðan stuðning frá utanríkisráðuneytinu og Fastaskrifstofu Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum vegna þátttöku í samstarfinu.

Magnús Guðmundsson sótti fundinn fyrir hönd Íslands.

Á fundinum var haldin sérstök kynning á samstarfi átta kortastofnana á Norðurslóðum, Arctic SDI og var sá viðburður vel sóttur. Í því verkefni hafa Landmælingar Íslands einnig verið virkur þátttakandi frá árinu 2010 þegar verkefninu var ýtt forlega úr vör. Formennska í stjórn Arctic SDI fylgir formennsku í Norðurskautsráðinu og munu Landmælingar Íslands taka við formennsku í Arctic SDI samstarfinu af Finnum vorið 2019.