Í könnun á stöðu landupplýsinga meðal opinberra aðila, sem gerð var fyrr á þessu ári, voru 423 landfræðileg gagnasett talin upp en gagnasettin teljast hluti af grunngerð landupplýsinga á Íslandi. Á nýrri síðu er hægt að skoða lista yfir þessi gagnasett og átta sig á því á auðveldan hátt, hvort að til séu lýsigögn um þau og þjónustur þar sem hægt er að skoða og/eða ná í gögnin. Eigendur gagnanna eru sérstaklega hvattir til að skoða listann og hafa samband við Landmælingar Íslands ef aðstoð þarf við skráningu lýsigagna eða við að útbúa þjónustur.
Mikilvægt er að lýsigögn um þessi gagnasett liggi fyrir og séu skráð í Lýsigagnagátt svo að hagsmunaaðilar geti fengið nánari upplýsingar um þau, t.d. hvar er hægt að nálgast þau og hvort þeir geti nýtt sér þau. Í langflestum tilfellum er um að ræða opinber gögn sem ætti að miðla á aðgengilegan hátt, annars vegar í gegnum skoðunarþjónustu, s.s. Landupplýsingagátt og hins vegar í gegnum niðurhalsþjónustu. Í lýsigögnin eru meðal annars skráðar upplýsingar um skilmála vegna notkunar og dreifingar eða miðlunar.