Brennisteinsfjöll – hæðarlíkan

Brennisteinsfjöll er fjalllendi suðvestan við Bláfjöll og samgróið þeim. Þau liggja utan við alfaraleið en eru án efa ein af stærstu perlunum á SV-horni landsins. Brennisteinsfjöll eru virkt eldfjallasvæði og þar er jafnframt háhitasvæði og fjölbreyttar gosmyndanir, svo sem gígaraðir, hrauntraðir og hraun. Greina má gosrein á þessu svæði sem að austanverðu markast af Bláfjöllum og heiðinni há en vestanverðu af móbergsstapanum sem kenndur er við Lönguhlíð. Þarna er einnig hverasvæði þar sem brennisteinn var numinn um 1880.

Á þessu svæði er Selvogsgata (rauð lína), gömul þjóðleið milli byggða, frá Hafnarfirði til strandar í Selvogi í Árnessýslu, um 30 km leið (sjá nánar hér: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/221850/).

Einnig er hægt að ganga að Brennisteinsfjöllum frá bílastæðinu í Bláfjöllum og er sú vegalengd um 5 km.

Hér má skoða þrívíddarlíkan af Brennsisteinsfjöllum, stækka, snúa og hvolfa en það er gert með ArcticDEM hæðargögnum frá Polar Geospatial Center, Bandaríkjunum. Hjá Landmælingum Íslands fer fram vinna við uppfærslu hæðargagna en þessi mynd er dæmi um hvernig nota megi hæðargögn. Gervitunglamynd: WorldView 02, tekin 11. júní 2017.

Hér má skoða kort af svæðinu, en við það hefur verið bætt lögum sem sýna nútímahraun, borholur og gíga en auðvelt er að bæta við lögum í flipanum KORTALÖG.