CORINE landgerðabreytingar á Íslandi 2000 – 2018

Landgerðabreytingar sem urðu milli 2012 og 2018
Breytingar milli 2006 og 2012.
Breytingar sem urðu milli 2000 og 2006.

CORINE landgerðaflokkuninni var lokið í nóvember 2018 og var þetta í fjórða skipti sem hún var gerð hér á landi. CORINE er samevrópskt landgerða-/landnotkunarflokkunarverkefni sem 39 Evrópulönd taka núna þátt í. Notaðar eru gervitunglamyndir til þess að kortleggja landgerðir samkvæmt ákveðnum flokkunarlykli og eru breytingar á landgerðum/landnotkun kortlagðar á 6 ára fresti. CORINE flokkun var fyrst gerð hér á landi fyrir árið 2000 og hefur síðan verið uppfærð þrisvar sinnum; 2006, 2012 og núna síðast 2018. Umhverfisstofnun Evrópu í Kaupmannahöfn hefur umsjón með CORINE verkefninu en flokkunarvinnan hér á landi fer fram hjá Landmælingum Íslands.

Í CORINE flokkast land í 5 grunnflokka (1. Manngert yfirborð, 2. Landbúnaðarland, 3. Skóga og önnur náttúruleg svæði, 4. Votlendi og 5. Vötn og höf) sem síðan greinast í 44 landgerðir. Af þeim koma 32 fyrir á Íslandi.

Á meðfylgjandi myndum er landgerðabreytingar sem kortlagðar voru 2006, 2012 og 2018 táknaðar með rauðum lit:

  • Efsta mynd: Landgerðabreytingar sem urðu milli 2012 og 2018.
  • Miðmynd: Breytingar milli 2006 og 2012.
  • Neðsta mynd: Breytingar sem urðu milli 2000 og 2006.

Rétt er að taka fram að umfang breytinganna er ýkt til þess að þær sjáist betur á svo litlum myndum. Í stórum dráttum líkjast þessar myndir mjög hver annarri; Helstu breytingarnar eru ávallt hinar sömu: rýrnun jöklanna og breytingar á rennsli jökuláa eru alls staðar mest áberandi. Aðrar breytingar eru einkum ný skógræktarsvæði, sumarhúsabyggðir, tún, golfvellir o.þ.h.

Helsti munurinn á myndunum þremur er eftirfarandi:

  • Keflavíkurvegurinn var að mestu tvöfaldaður fyrir árið 2006 og kemur því inn sem breyting á neðstu myndinni (einfaldir vegir eru of mjóir til þess að flokkast með í CORINE).
  • Kárahnjúkalón var fyrst fyllt sumarið 2007 og þá verða einnig miklar breytingar á Jökulsá á Brú (miðmyndin).
  • Árið 2018 eru helsu breytingar vegna árangurs af landgræðslu á Hólasandi (S-Þineyjarsýslu) og á Haukadalsheiði (sunnan Langjökuls). Þá varð eldgos í Holuhrauni 2014 þar sem 85 km2 hraun rann yfir land þar sem aðallega voru sandar og jökuláreyrar.