Samningur Landmælinga Íslands og Veðurstofu Íslands um samnýtingu vinnurýma

Árni Snorrason, Veðurstofustjóri og Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri við undirritun samningsins.
Árni Snorrason, Veðurstofustjóri og Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri Landmælinga Íslands við undirritun samningsins.

Aukin sveigjanleiki er hluti þess sem starfsfólk vinnumarkaðarins sækist eftir. Þetta var m.a. niðurstaða málþings Landmælinga Íslands nú á vormánuðum sem bar heitið „Ríkisstofnun úti á landi– búbót eða basl?“ Á málþinginu kom einnig fram að starfsmenn sem vinna í öðrum sveitarfélögum en þeir búa í eru undir meira álagi vegna ferða auk þess sem ferðir til og frá vinnu marka stærra kolefnisfótspor en hjá þeim sem vinna nærri heimili sínu. Þá komu einnig fram á málþinginu tillögur um að samnýta húsnæði stofnana sem eru á landsbyggðinni fyrir starfsmenn annara stofnanna og þannig mætti fjölga starfsmönnum ríkisins á landsbyggðinni, óháð því hvar höfuðstöðvar þeirra væru.

Með niðurstöður málþingsins í huga hafa Veðurstofa Íslands og Landmælingar Íslands gert með sér samning um samnýtingu vinnurýma í sínum stofnunum. Þannig hafa starfsmenn Landmælinga Íslands nú aðstöðu hjá Veðurstofunni Íslands í Reykjavík og starfsmenn Veðurstofunnar aðstöðu hjá Landmælingum á Akranesi. Þessi samningur gerir það að verkum að starfmenn Veðurstofunnar sem búsettir eru á Akranesi eða nágrenni en vinna í Reykjavík geta nú unnið að hluta til á Akranesi, þrátt fyrir að Veðurstofan sé ekki með útibú þar. Það sama gildir um starfsmenn Landmælinga sem búsettir eru í Reykjavík en þeir geta nú nýtt sér aðstöðu hjá Veðurstofunni þegar það á við.

Frá því í byrjun árs 2018 hefur starfsfólki Landmælinga Íslands verið gefinn kostur á að vinna heima einn dag í viku. Þetta hefur einkum reynst starfsfólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu vel en með nýja samningnum við Veðurstofuna má gera ráð fyrir að sveigja aukist enn meira sem um leið dregur úr umhverfisáhrifum og hefur í för með sér aukinn vinnutíma starfsmanna.  Að sögn Eydísar Líndal, setts forstjóra Landmælinga Íslands, hafa fleiri stofnanir innan umhverfis- og auðlindaráðuneytisins gert svipaða samninga um samnýtingu húsnæðis og gerir hún ráð fyrir að slíkir samningar eigi eftir að auka möguleika fólks á að búa á landsbyggðinni en starfa hjá stofnunum sem hafa aðsetur sitt t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þá telur hún að þetta ýti undir meiri samskipti milli stofnana sem sé aðeins af hinu góða.