Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa fimm gagnalaga af átta í IS 50V. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum, samgöngum, vatnafari og strandlínu.
Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu og er það eina lagið þar sem stöðugt er unnið að uppfærslum. Frá síðustu útgáfu hefur verið skráð töluvert af örnefnum í 17 sveitarfélögum; Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppi, Stykkishólmsbæ, Dalabyggð, Vesturbyggð, Kaldrananeshreppi, Sveitarfélaginu Skagafirði, Eyjafjarðarsveit, Þingeyjarsveit, Norðurþingi, Fljótsdalshéraði, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppi, Djúpavogshreppi, Mýrdalshreppi, Flóahreppi og Suðurnesjabæ. Á milli útgáfa hafa 4000 örnefni verið skráð.
Í mannvirkjum voru gerðar breytingar og leiðréttingar í punktalaginu. Nýjar upplýsingar um íbúafjölda frá Hagstofunni eru komnar í flákalagið og einnig voru smávæginlegar breytingar gerðar.
Nýir vegir frá Vegagerðinni voru settir inn í vegalagið. Einnig voru ýmsar leiðréttingar gerðar, þá hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en það eru t.d. alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum. Smávæginlegar breytingar voru gerðar á flákalaginu (flugvellir). Þingeyrarflugvelli var breytt úr áætlunarflugvelli yfir í lendingastað, einnig var slitlagið yfirfarið.
Vatnafarið var uppfært í kringum skriðuna sem féll í Hítardal sumarið 2018, notast var við gervitunglamynd frá júlí 2018. Einnig voru fáeinar leiðréttingar gerðar víðsvegar um landið. Í tenglsum við uppfærslu á vatnafarinu urðu einhverjar tilfærslur á hjálparlínum í dálkinum‚ adstodarlina í línulaginu en lega strandlínunnar breyttist ekkert. Flákalagið er óbreytt.
Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands og gögnin sjálf er hægt að skoða í landupplýsingagátt LMÍ og kortasjá LMÍ
Einnig er hægt að nálgast IS 50V í gegnum wms og wfs þjónustur. Með því að nota t.d. opna hugbúnaðinn Qgis (https://qgis.org/en/site/) er hægt að skoða IS 50V gegnum þessar þjónustur.
wms : https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WMS
wfs: https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WFS
Bendum einnig á leiðbeiningarsíðu Landmælinga Íslands en þar er að finna ýmsar upplýsingar.