Franskur námsmaður í starfsþjálfun hjá LMÍ

Eydís L. Finnbogadóttir, forstjóri LMÍ, færði Hugo Lecomte bók að gjöf.
Eydís L. Finnbogadóttir, forstjóri Landmælinga Íslands færði Hugo Lecomte bók að gjöf.

Í sumar hefur franskur námsmaður, Hugo Lecomte, verið í starfsþjálfun hjá Landmælingum Íslands. Hugo er að ljúka meistaranámi í mælingaverkfræði við National school of Geography Sciences í París og er starfsþjálfunin hluti af námi hans.

Verkefni Hugo hjá Landmælingum Íslands hafa verið á sviði landmælinga þar sem hann hefur starfað þétt með mælingaverkfræðingum stofnunarinnar. Hugo segir að stærsta verkefnið hafi verið að tengja saman hið svokallaða Reykjavíkurkerfi og landshnitakerfið ISN2016. “Þar mældum við 55 punkta í hnitakerfi Reykjavíkur og notuðum þá til að búa til vörpun yfir í ISN2016. Með þeirri vörpun er svo hægt að flytja eldri hnit yfir í nýtt kerfi eða ný hnit í gamla kerfið á mun nákvæmari hátt en áður. Að auki vann ég við nokkur önnur mælingaverkefni s.s. að vefsíðu sem vinnur sjálkrafa úr GNSS mælingagögnum, þróaði greiningartól sem metur gæði IceCORS jarðstöðvakerfisins og einnig tól til að varpa gögnum á milli skráarforma”

Hugo heldur nú á heimaslóðir í Frakklandi og verður fyrsta verk hans þegar heim kemur að verja mastersritgerð sína sem starfsþjálfunin hjá Landmælingum Íslands er hluti af. Að því loknu hefur hann störf hjá landmælinga- og kortagerðarstofnun Frakklands, IGN.

Hugo hefur verið skemmtileg viðbót í hópinn hjá Landmælingum, bæði faglega og félagslega og óskum við honum velfarnaðar í störfum sínum í framtíðinni.