Hæðarmælingar með nýrri alstöð – tvöfalt meiri afköst og ódýrari mælingar

Þórarinn Sigurðsson við mælingar á Kili.
Þórarinn Sigurðsson við mælingar á Kili.

Eitt af mikilvægustu verkefnum Landmælinga Íslands er að byggja upp og viðhalda sameiginlegu hæðarkefi fyrir allt Ísland. Til þessa hefur vinnan að mestu byggst á fínhallamælingum en í lok síðasta árs festu Landmælingar Íslands kaup á alstöð af gerðinni Trimble S9 HP sem nota má til hallamælinga  í stað fínhallamælinga. Alstöðin er með hálfrar sekúndu nákvæmni og í frétt sem birt var á vef Landmælinga Íslands þegar stöðin var afhent kom meðal annars fram að alstöðin væri aðallaga hugsuð til mælinga vegna viðhalds og við áframhaldandi uppbyggingu á hæðarkerfi Íslands, ISH2004.  Einnig að gert væri ráð fyrir að afköst við mælingar tvöfölduðust og að ný aðferð hafi töluverða hagræðingu og hagkvæmni í för með sér.

Nú er mælingum sumarsins í landshæðarkerfinu lokið og komið hefur í ljós að alstöðin hefur staðið undir væntingum. Alls voru mældir 80 km á Kjalvegi, frá Áfangafelli og að Fremri-Skúta, á þrem vinnuvikum. Mældir voru því að meðaltali um 5.3 km á dag. Til samanburðar eru meðalafköst í hefðbundnum fínhallamælingum um 2.5 km á dag.

Á góðum dögum náðist að mæla allt að 9-10 km samanborið við 5-6 km á góðum degi í fínhallamælingu. Mestu munar þó um að hægt er að mæla við verri veðurskilyrði en við fínhallamælingar, þótt það gangi svolítið hægar en við bestu skilyrði. Þannig þurfti einungis að gera hlé á mælingum í nokkrar klukkutíma í sumar á meðan slagveðursrigning gekk yfir mælisvæðið. Mælt var í vindi sem var yfir 10 m/s en niðurstöður þeirra mælinga voru þó talsvert lakari en þegar mælt var í minni vindi, en þó innan þeirra nákvæmnismarka sem krafa er gerð um í landshæðarkerfinu.