Ný útgáfa á IS 50V

Meðfylgjandi mynd sýnir fáein ný örnefni frá síðustu útgáfu og þar kennir ýmissa grasa.
Meðfylgjandi mynd sýnir fáein ný örnefni frá síðustu útgáfu og þar kennir ýmissa grasa.

Á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands er komin ný útgáfa fimm gagnalaga af átta í IS 50V. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum, mörkum, samgöngum og vatnafari.

Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu og er það eina lagið þar sem  stöðugt er unnið að uppfærslum. Blóðmörstangasund, Buxasvelti og Lymskulág eru dæmi um þrjú ný örnefni sem bættust við örnefnalagið frá síðustu útgáfu en örnefni hafa verið skráð á fjölmörgum stöðum á landinu. Í Þingeyjarsýslum og Fljótsdalshéraði eru skráningarverkefni í gangi og yfir 750 örnefni hafa verið skráð í Skáleyjum á Breiðafirði auk þess sem nýr pakki bíður skráningar. Einnig hafa verið skráð um 700 örnefni á Þingvöllum. Örnefnum sem innihéldu seil var breytt í seyl eftir athugasemd frá Svavari Sigmundssyni (sjá https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75759). Heildarfjöldi örnefna í grunninum er nú um 128.500.

Það er einnig búið að endurskoða nafnberalistann og er sú endurskoðun byggð á nafnberalista Örnefnastofnunar Ástralíu (Australian National Placename Survey) og var hann staðfærður fyrir Ísland. Landmælingar Íslands leituðu til ýmissa stofnana og einstaklinga í þessari vinnu. Helsta ástæðan fyrir endurskoðuninni var að eldri listinn þótti ekki nógu ítarlegur og erfitt var að finna flokkun á sum örnefni. Hægt er að sjá nýja nafnberalistann á heimasíðu Landmælinga Íslands.

Í sveitarfélagamörkunum (flákar) breyttist heiti á einu sveitarfélagi, Akureyrarkaupstaður var breytt í Akureyrarbær. Talsverðar breytingar urðu á póstnúmeralaginu, breytingarnar tóku gildi 1. október síðastliðinn. M.a. kom nýtt póstnúmer í Reykjavík, 102, hér sést hvaða breytingar urðu á póstnúmerunum https://www.postur.is/um-postinn/upplysingar/frettir/nytt-postnumer-i-reykjavik/.

Önnur lög breyttust ekki og lagið sjórinn fylgir ekki lengur með útgáfunni.

Í mannvirkjum voru gerðar breytingar og leiðréttingar í punktalaginu en flákalagið er óbreytt.

Nýir vegir frá Vegagerðinni voru settir inn í vegalagið. Einnig voru ýmsar leiðréttingar gerðar, þá hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en það eru t.d. alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum. Engar breytingar voru gerðar á flákalaginu (flugvellir).

Vatnafarið var uppfært í á norðanverðum skaganum milli Húnaflóa og Skagafjarðar.

Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands og gögnin sjálf er hægt að skoða í landupplýsingagátt LMÍ og kortasjá LMÍ

Einnig er hægt að nálgast IS 50V í gegnum wms og wfs þjónustur. Með því að nota t.d. opna hugbúnaðinn Qgis (https://qgis.org/en/site/) er hægt að skoða IS 50V gegnum þessar þjónustur.

wms : https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WMS

wfs: https://gis.lmi.is/geoserver/IS_50V/ows?request=GetCapabilities&service=WFS

Bendum einnig á leiðbeiningarsíðu Landmælinga Íslands en þar er að finna ýmsar upplýsingar.