Sumarið 2019 fór fram vinna hjá Landmælingum Íslands við að tengja hnitakerfi Reykjavíkur við landshnitakerfið ISN2016. Hnitakerfi Reykjavíkur var komið til ára sinna og er í grunninn plankerfi sem gerir ráð fyrir að jörðin sé flöt. Þetta hefur skapað nokkur vandræði, sérstaklega þegar unnið er með GNSS mælingar í Reykjavíkurkerfinu. Vinnan fór þannig fram að mældir voru 55 punktar í hnitakerfi Reykjavíkur og þeir notaðir til að búa til vörpun yfir í ISN2016.
Fyrsta skrefið eftir að reiknað hafði verið úr GNSS mælingunum var að reikna hefðbundna tvívíða Helmert vörpun milli Reykjavíkurkerfisins og ISN2016. Til þess að lámarka bjögun vegna kortavörpunar var notast við Gauss-Kruger hnit með skurðbaug við 21°V í stað hinna hefðbundnu Lambert hnita.
Niðurstöður Helmert vörpunarinnar sýna að bjögun milli Reykjavíkurkerfisins og ISN2016 er um ±15cm í austur-vesturstefnu og ±10cm norður-suður. Þetta helgast fyrst og fremst af því að ekki er gert ráð fyrir krappa jarðar í Reykjavíkurkerfinu en einnig læðist þarna inn bjögun vegna jarðskorpuhreyfinga og skekkja í eldri og nýrri mælingum. Ef notuð var hin hefðbundna Lambert vörpun var bjögunin allt að ±30cm í austur-vesturstefnu og ±20cm norður-suður.
Næsta skref var að greina mismuninn eftir staðsetningu fastmerkjanna og sjá hvort hægt væri að kortleggja hann til þess að bæta vörpunina. Var þetta gert með svokallaðri hæðarbrúun (e. Kriging) í forritinu Surfer. Reiknuð voru tvö net, fyrir Austur-Vestur og Norður-Suður bjögun. Þegar netum er blandað saman er hægt að gera sér grein fyrir stærðargráðu og stefnu bjögunarinnar, sjá mynd.
Með nýju vörpuninni er svo hægt að flytja hnit á milli hnitakerfis Reykjavíkurborgar yfir í ISN2016 og ISN93 með meiri nákvæmni en áður. Vörpunin er nú aðgengileg í cocodati.
Hægt að hlaða niður vörpunarneti og upplýsingum um hvernig framkvæma á vörpunina í proj og GDAL á niðurhalssíðu LMÍ. Nafnið á skránni er PROJ_files_IS.zip.