Aðgengi að myndgögnum

Landmælingar Íslands hafa samið um aðgengi að myndgrunni af landinu fyrir allar stofnanir ríkisins til að nota sem bakgrunn í kortaþjónustum og til almennrar kortlagningar.

Um er að ræða gervitunglamyndir frá bandaríska fyrirtækinu Maxar, aðallega frá gervitunglunum Geoeye 1 og WorldView 2, 3 og 4.  Um 40% myndanna eru frá 2019 og 90% myndanna eru yngri en sex ára.  Hver myndpunktur er 50 x 50 cm sem dugar ágætlega sem bakgrunnur fyrir birtingu annara gagna og til þess að staðsetja ákveðin fyrirbæri í landslagi. Þessi gögn koma þó ekki í stað nákvæmari myndgagna sem brýn þörf er á að verði aflað og þau gerð aðgengileg.

Einnig var samið um aðgengi að enn nákvæmari gögnum af höfuðborgarsvæðinu. Þar er um að ræða 30 cm mynd sem tekin var 27. maí 2019.

Myndirnar má sjá sem bakgrunn í ýmsum kortaþjónustum LMÍ t.d. nýrri Kortasjá sem enn er í þróun.