Á vef Landmælinga Íslands er að finna skönnuð eintök af kortasafni stofnunarinnar. Aðgengi að eldri kortum er mikilvægt enda eru kortin áhugaverðar heimild um breytingar á yfirborði landsins. Kortasafn Landmælinga Íslands er að stærstum hluta kortaseríur sem Danir og síðar Bandaríkjamenn kortlögðu. Kortaseríur Dana ganga undir heitunum Herforingjaráðskortin, sem nýlega voru gerð aðgengileg í kortasjá og Atlaskort. Kortaseríur Bandaríkjamanna ganga undir heitunum AMS kort og DMA kort.
Reglulega berast Landmælingum Íslands gömul kort að gjöf og hefur stofnunin tekið á móti þeim með það í huga að yfirfara hvort um sé að ræða útgáfur sem kann að vanta í kortasafn stofnunarinnar en hvert kort er geymt í nokkrum eintökum. Nýverið barst stofnuninni safn AMS korta sem jarðfræðingurinn Sverrir Scheving Thorsteinsson hafði safnað og notað við vinnu sína, en hann er nú látinn. Brynhildur Scheving Torsteinsson, dóttir Sverris færði Landmælingum Íslands kortasafnið hans og eru henni færðar þakkir fyrir. Nokkur kort úr safni Sverris voru ekki til í frumriti í safni Landmælinga Íslands og eru þau því kærkomin viðbót fyrir kortasafnið.
Kortasafn Landmælinga Íslands er aðgengilegt á vef stofnunarinnar auk þess er gaman að benda á kortasafn Landsbókasafns Íslands en þar er meðal annars að finna fornkort sem eru skemmtilega uppsett í tímaröð.