LÍSU-samtökin ásamt Landmælingum Íslands og samstarfsaðilum hafa útbúið samræmt reitakerfi fyrir allt Ísland sem nefnist Reitakerfi Íslands. Í Samráðsnefnd um gerð reitakerfisins sátu, auk aðila frá LÍSU og LMÍ, aðilar frá Landlæknisembætinu, Náttúrfræðistofnun Íslands, Orkustofnun og Umhverfisstofnun. Auk þess fékk hópurinn aðstoð frá Samsýn ehf.
Orðanefnd LÍSU var beðin um að koma með tillögu að heiti á reitakerfið og varð nafnið Reitakerfi Íslands fyrir valinu.
Reitakerfi er nauðsynlegt til að birta upplýsingar sem að einhverjum ástæðum geta ekki birst sem einstakar s.s. vegna persónuverndar. Þar sem um var að ræða reiti fyrir saumlausan gagnagrunn, óháðan blaðskiptingu, var ákveðið að hafa reitina ferningslaga. Einnig var ákveðið að hafa allar viðmiðanir í landshnitakerfinu með lambert kortvörpun, sem byggir á ÍSN93. Hliðar reita eru þá látnar ganga eftir hnitum sem enda á heilum tug kílómetra, t.d. 500.000 og sá næsti í 510.000. Þetta reitakerfi þekur allt landið en mjög auðvelt er að stækka það til að spanna hafsvæði í kringum landið. Hver reitur hefur nafn sem er einkvæmt og er byggt upp á stærðareiningu reitarins_norðurhniti_austurhniti, sem dæmi fyrir reiti í 50 km netinu er 50km_40_60.
Hægt er að nálgast íslenska reitakerfið hjá Landmælingum Íslands með því að senda póst á netfangið lmi@lmi.is