NÆSTU SKREF

Lög um Grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar

Mánudaginn 2. maí voru samþykkt á Alþingi lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Markmið laganna er að byggja upp og viðhalda grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á vegum stjórnvalda og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum. Unnið hefur verið í nokkurn tíma að gerð þessara laga en þau tengjast svokallaðri INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins.

Nýtt hlutverk LMÍ

Með lögum um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar fá Landmælingar Íslands nýtt hlutverk. Breytingar verða á 4. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð en þar bætist við nýr töluliður sem segir: „ Að fara með framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, þ.m.t. að sjá um rekstur, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar.


Fréttabréfið Grunngerð

Landmælingar Íslands hyggjast gefa út fréttabréfið GRUNNGERÐ vegna grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar og innleiðingar INSPIRE. Markmiðið er að sem flestir geti fylgst með framgangi mála enda er hér um að ræða sameiginlegt verkefni fjölmargra opinberra aðila. Fréttabréfið mun koma út nokkrum sinnum á ári og um leið vísa til vefsíðu grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar.

Samvinnuverkefni opinberra aðila

Landmælingar Íslands fagna því að nú séu „grunngerðarlögin“ samþykkt og hlakka til að takast á við nýtt og umfangsmikið verkefni sem sýnt þykir að muni verða til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Verkefnið verður þó ekki unnið eingöngu hjá Landmælingum Íslands heldur er um að ræða samvinnuverkefni þar sem aðilar frá mismunandi ráðuneytum, stofnunum og  sveitarfélögum þurfa að koma að, allt frá efsta stigi stjórnenda til sérhæfðra tæknimanna.  Það er því ósk stofnunarinnar að sem flestir leggi fram krafta sína við grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á Íslandi.

Leave a comment