Lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar nr. 44/2011 voru samþykkt á Alþingi í maí síðastliðnum en með þeim eru grundvallaratriði svokallaðrar INSPIRE-tilskipunar Evrópusambandsins innleidd samkvæmt EES samningnum. Markmið laganna er að byggja upp og viðhalda grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á vegum stjórnvalda ekki síst til að auka aðgengi stjórnvalda sjálfra og almennings að mikilvægum upplýsingum. Landupplýsingar eru hvers kyns hnitsettar upplýsingar um fyrirbæri í umhverfinu, bæði náttúruleg og manngerð.
Þessi lög eru mikið framfaraspor fyrir samfélagið og með framkvæmd þeirra verður aðgengi almennings að landupplýsingum mun betra en áður. Með löggjöfinni eykst einnig aðgengi stjórnvalda og einstakra stofnana að þeim landupplýsingum sem til eru og sýnt hefur verið fram á að þegar til lengri tíma er litið má spara töluverða fjármuni. Lögin kveða hins vegar ekki á um söfnun nýrra upplýsinga heldur er fyrst og fremst verið að gera þær upplýsingar sem fyrir liggja nú og í framtíðinni aðgengilegri öllum til hagsbóta.
Í nútímaþjóðfélagi þar sem borgararnir taka í auknum mæli þátt í ákvarðanatöku um hin ýmsu mál og láta sig umhverfismál miklu varða er lykilatriði að til séu áreiðanlegar og góðar upplýsingar. Gott skipulag á þessu sviði hvetur til aukinnar nýsköpunar og rannsókna og opnar ný tækifæri fyrir einkafyrirtæki og stofnanir til að efla þjónustu við almenning. Aðgengilegar upplýsingar um ýmsa náttúrufarsþætti svo sem vatn, jarðveg, gróður og landslag ættu að stuðla að því að betur verði hægt að fylgjast með ástandi umhverfisins og bæta úr þar sem þörf er á. Slíkt er mikilvægt, sérstaklega nú á tímum mikilla breytinga í náttúrunni.
Með lagasetningunni fá Landmælingar Íslands nýtt og aukið hlutverk en stofnunin fer með framkvæmd laganna þar sem þörf er góðrar samvinnu við fjölmargar stofnanir og sveitarfélög.
Það er mikil vinna framundan við framkvæmd og innleiðingu laganna og til þess að markmið þeirra náist er mikilvægt að allir sem að málinu koma leggi sig fram og taki fullan þátt í þeirri vinnu sem mun nýtast öllum í framtíðinni. Ég vil óska þeim sem að þeirri vinnu munu koma góðs gengis og vona að við náum í sameiningu þeim markmiðum sem sett hafa verið með lögunum.
Svandís Svavarsdóttir
umhverfisráðherra