Viðurkenning fyrir nýsköpun í opinberum rekstri

Landmælingar Íslands fengu þann 3. nóvember 2011 viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberum rekstri fyrir verkefnið „“Örnefni á vefnum“ á ráðstefnu á Grand Hótel í Reykjavík. Viðurkenningin var afhent af Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra en að ráðstefnunni stóðu Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Stofnun stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands, fjármálaráðuneytið, Rannís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Á meðfylgjandi ljósmynd eru starfsmenn Landmælinga Íslands sem unnið hafa að verkefninu „Örnefni á vefnum“, f.v. Brandur Sigurjónsson, Eydís Líndal Finnbogadóttir, Rannveig Lydia Benediktsdóttir, Ragnar Þórðarson og Samúel Jón Gunnarsson (á myndina vantar Þóreyju Dalrós Þórðardóttur).
Verkefnið „Örnefni á vefnum“ snýst um að byggja upp gagnagrunn um örnefni af öllu Íslandi og að hanna örnefnasjá þar sem megin markmiðið er að opna aðgengi að örnefnum á auðveldan og notendavænan hátt. Örnefnagrunnurinn inniheldur yfir 58.000 örnefni og fer þeim sífellt fjölgandi enda mikill áhugi almennings á varðveislu örnefna og því um leið sögu íslenskrar þjóðar og náttúru. Örnefnagrunnurinn hefur á undanförnum árum einnig verið unninn í samvinnu við nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá hafa valdir skráningaraðilar einnig rétt til að skrá örnefni í grunninn. Í vefsjánni eru útgefin örnefni en það eru örnefni sem eru hluti af örnefnum IS 50V gagnagrunnsins en tvær útgáfur koma út á ári, að vori og vetri.

Lögreglan á Hvolsvelli hlaut Nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri 2011 vegna verkefnisins „Skipulag rýminga vegna jökulhlaupa sem fylgja eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli. Samstarf íbúa og almannavarnayfirvalda“. 

 Þá fengu auk verkefnis Landmælinga Íslands eftirtalin tvö verkefni sérstaka viðurkenningu: Blindrabókasafn Íslands fyrir verkefnið „Yfirfærsla bókakosts Blindrabókasafns Íslands yfir á stafrænt form“ og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefnið „Notkun samfélagsmiðla (Facebook og Twitter) á sviði löggæslu“.

 Nánari upplýsingar eru á nýsköpunarvefnum sem var opnaður á ráðstefnunni um nýsköpun í opinberum rekstri.

 

Leave a comment