Síðastliðinn föstudag barst Landmælingum Íslands höfðingleg gjöf en þá færði Sigurrós Júlíusdóttir stofnuninni ljósmynd að gjöf og til varðveislu. Ljósmyndin er af tveimur dönskum landmælingamönnum á hestbaki sem voru við mælingar á Íslandi líklega á fyrsta áratug síðustu aldar. Um er að ræða yfirmenn í mælingadeild danska herforingjaráðsins en eins og margir vita unnu Danir að kortagerð af Íslandi frá því í kringum aldamót til ársins 1945 og unnu mikið afrek á því sviði. Enn eru kortin sem unnin voru af Dönum notuð á Íslandi og eru þau oft kölluð herforingjaráðskort.