Árangursríkur fundur um kortamál á Norðurslóðum

Dagana 5.-6. apríl 2011 funduðu fulltrúar kortastofnana Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur, Grænlands, Bandaríkjanna, Rússlands og Kanada um uppbyggingu á grunngerð fyrir landupplýsingar á norðurslóðum (Arctic SDI). Auk fulltrúa kortastofnananna tók fulltrúi Norðurskautsráðsins þátt en verkefnið er unnið í nánu samstarfi við ráðið. Verkefnið nær til mjög stórs svæðis á norðurhveli jarðar sem þekur 1/6 af yfirborði jarðarinnar og því þarf mikla samvinnu, gott skipulag og nýjustu tækni til að hægt verði að veita notendum aðgang að stafrænum grunnkortum á netinu sem er meginmarkmið verkefnisins. Á fundinum var fyrst og fremst fjallað verkáætlun fyrir Arctic SDI og var hún samþykkt. Einnig var ákveðið að Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands verði formaður stjórnar Arctic SDI verkefnisins næstu tvö árin en hann er fulltrúi allra norrænu kortastofnanna.

Arctic SDI verkefnið á sér nokkra sögu en á fundi forstjóra norrænna kortastofnana sem haldinn var í Illulissat á Grænlandi í september 2008 var samþykkt að beina því til Norðuskautsráðsins (Arctic Council) að kortastofnanir Norðurlandanna myndu hafa frumkvæði að því að byggja upp grunngerð fyrir landupplýsingar á norðurslóðum. Síðan þá hefur verið unnið að málinu í náinni samvinnu við Norðurskautsráðið og fleiri.

Leave a comment