Nýr gagnasamningur Landmælinga og Orkustofnunar

Landmælingar Íslands og Orkustofnun hafa endurnýjað samning um samstarf, sem tekur við af eldri samstarfssamningi frá árinu 2000. Markmið samningsins er að tryggja samstarf stofnananna á sviði landfræðilegra gagnamála, nýta sérfræðiþekkingu, auka upplýsingamiðlun og samnýta landfræðileg gögn, meðal annars til að geta aukið gæði gagna og komið í veg fyrir tvíverknað.

 Samningurinn nær til öflunar, skráningar og aðgengis að landfræðilegum gögnum og á að stuðla að markvissri nýtingu þeirra vegna ýmissa upplýsinga- og gagnaverkefna á vegum stofnananna. Viðaukasamningar fylgja samstarfssamningnum, þar sem einstök verkefni og notkunarheimildir vegna gagna eru skilgreind nánar. Hvor stofnun fær með samningnum aðgang að þeim landfræðilegu gögnum hinnar stofnunarinnar sem ekki eru bundin kvöðum vegna höfundarréttar eða annarra réttinda þriðja aðila. Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri og Magnús Guðmundsson forstjóri LMÍ undirrituðu samninginn í dag, 7. júlí. 2008.

Frá undirritun samstarfssamnings OS og LMÍ. Frá vinstri: Guðni A. Jóhannesson og Þorvaldur Bragason frá Orkustofnun, Gunnar H. Kristinsson og Magnús Guðmundsson frá Landmælingum Íslands.

Leave a comment