Umfjöllun um gæði landakorta

Undanfarið hafa nokkrir sérfræðingar tjáð sig um mikilvægi góðra korta í fréttatímum Ríkisútvarpsins. Landmælingar Íslands fagna umræðu um þessi mál enda eru sífellt gerðar auknar kröfur á þessu sviði um allan heim. Um leið er því vísað á bug að stofnunin sinni ekki hlutverki sínu þó ávallt megi gera betur í landi þar sem náttúran tekur hröðum breytingum. Umfjöllunin hjá Fréttastofu útvarps hefur að hluta byggst á misskilningi hvað varðar notkun á hugtökum eins og mælikvarða, nákvæmni, kortagrunna og nákvæmniskortagerð og er útkoman verulega ruglingsleg. 

Stofnunin áréttar að kort eru einföldun á raunveruleikanum á ákveðnum tímapunkti. Enginn skyldi treysta blindandi á landakort hvort sem það er nýtt eða gamalt, að ekki sé talað um við hættulegar aðstæður í náttúrunni.

 Tækni við kortagerð hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum og góðir tekjumöguleikar hafa skapast á sumum sviðum kortagerðar. Þetta hefur leitt til aukinnar sóknar einkafyrirtækja inn á þennan markað og að skýr lína sé dregin á milli starf­semi ríkis og einkaaðila. Í júní 2006 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um starfsemi Landmælinga Íslands. Verk­efni Landmælinga Íslands voru skýrð og einfölduð með nýju lögunum til að draga stofnunina út úr samkeppni. Landmælingar Íslands hættu þar með útgáfu prentaðra korta fyrir ferðafólk og einnig voru settar verulega takmarkanir á að Landmælingar Íslands sinni nákvæmri kortagerð til að gefa einkafyrirtækjum eins og verkfræðistofum aukið svigrúm.

 Flestir sem til þekkja eru sammála um að þörf er á að efla gagnaöflun um náttúru Íslands á ýmsum sviðum. Slík gagnaöflun er mjög dýr og því er þörf á auknum fjármunum og auknu samstarfi opinberra aðila á þessu sviði. Það er ekki síður mikilvægt að tryggja að landfræðileg gögn sem ríkistofnanir og sveitarfélög búa yfir séu aðgengileg, bæði fyrir stjórnvöld og almenning. Margar ríkisstofnanir aðrar en Landmælingar Íslands afla landupplýsinga og reka landfræðilega gagnagrunna. Þörf er á sérstöku átaki við að gera slík gögn aðgengileg en slíkt gæti bætt gæði landakorta sem fjallað hefur verið um í fréttum útvarpsins að undanförnu.

Leave a comment