Árið 2007 hófst flokkun landyfirborðs á Íslandi með tilliti til landgerða og landnotkunar í samræmi við svo kallaða CORINE-áætlun Evrópusambandins (CORINE: Coordination of Information on the Environment, sjá einnig http://atlas.lmi.is/corine/ og https://www-gamli.lmi.is/wp-content/uploads/2011/09/corineskyrsla-langa-isl.pdf ). Verkefnið var unnið hjá Landmælingum Íslands í samvinnu við evrópsku umhverfisstofnunina EEA (European Environment Agency) en samkvæmt CORINE flokkunarstaðlinum er yfirborði lands skipt í 44 mismunandi flokka og af þeim koma 32 fyrir hér á landi. CORINE er lifandi verkefni þar sem niðurstöðurnar eru uppfærðar á sex ára fresti og er það gert með sama hætti og á sama tíma í allri Evrópu, seinast fyrir árið 2006. Tilgangurinn með CORINE er að til sé einsleitur gagnagrunnur fyrir alla Evrópu þannig að samanburður milli landa sé mögulegur og hægt sé að fylgjast með breytingum á landnotkun í álfunni og taka út frá því pólitískar ákvarðnir varðandi umhverfisstjórnun og jafnvel að snúa við óæskilegri þróun til þess að takmarka hugsanlegan skaða. Til grundvallar vinnunni eru notaðar gervitunglamyndir með mikilli greinihæfni sem EEA útvegar og eru þær bornar saman við sambærilegar myndir sem teknar voru við síðustu kortlagningu sex árum fyrr. Þessar sömu gervitunglamyndir eru einnig notaðar við eftirlit sérfræðinga EEA með verklagi í hverju landi fyrir sig þannig að tryggt sé að niðurstöðurnar séu hvarvetna sambærilegar.
Kortlagning á CORINE-landgerðarbreytingum er nú að fara aftur af stað hjá Landmælingum Íslands og er viðmiðunarárið 2012. Kortlagðar eru breytingar sem orðið hafa á landnotkun eða landgerðum síðan 2006. Helstu breytingar sem menn eiga von á eru bráðnun jökla en undan þeim koma gróðurlausar urðir og sandar sem leiða til þess að gróðurlaust land stækkar. Vötn eiga eftir að stækka miðað við 2006 vegna nýrra lóna s.s. Hálslóns og manngerð svæði (þéttbýlisflokkar) stækka nokkuð. Þá er vitað að skógræktarsvæði hafa stækkað verulega. Sumir flokkar hafa ekkert breyst og þar má nefna sem dæmi flugvelli, sjávarfitjar og fjörur.
Með CORINE-verkefninu er í fyrsta sinn hægt að sýna fram á það með tölum hversu mjög Ísland er ólíkt öðrum löndum Evrópu. Flest Evrópulönd skiptast t.d. að mestu í landbúnaðarland, skóga og manngert yfirborð. Hér á landi flokkast hins vegar 86% landsins undir náttúruleg svæði, en manngerðir flokkar eru ekki nema 0,7%.
Samhliða CORINE verða unnin fimm gagnagrunnslög með mun meiri nákvæmni en gert er í CORINE, þ.e. skógar, vötn, votlendi, graslendi og þéttbýli. Gögn yfir votlendi og graslendi eru einkum áhugaverð því ekki eru til neinar nákvæmar, hnitbundnar upplýsingar um votlendi og graslendi á Íslandi. Það eru evrópsk fyrirtæki sem koma til með að vinna þessi gögn en Landmælingar Íslands munu sjá um að sannreyna niðurstöðurnar og leiðrétta þær ef á þarf að halda. CORINE-verkefnið er að mestu greitt af EEA en gert er ráð fyrir að það taki um eitt og hálft ár og verði lokið í júní 2014.