Aðgengi að kortum hefur aukist með tilkomu vefsins en aðgengi að opinberum korta- og landupplýsingum þarf að tryggja betur til að hægt sé að byggja ákvarðanatöku á öðru en Google.
Aukið aðgengi
Gott skipulag og aðgengi á sviði landupplýsinga hvetur til aukinnar nýsköpunar, rannsókna og nýrra tækifæra til að efla þjónustu við almenning. Því var mikilvægt skref stigið árið 2011 með lögum um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Markmið laganna er að auka aðgengi og koma á skipulagi og samtengingu landupplýsinga stjórnvalda. Landmælingar Íslands sjá um innleiðingu laganna.
Gjaldfrjáls gögn og aukinn vöxtur fyrirtækja
Í nýlegri erlendri rannsókn kemur fram að í þeim löndum þar sem opinberar korta- og landupplýsingar eru án gjaldtöku er vöxtur fyrirtækja sem reiða sig á slík gögn 15% meiri en þar sem gögnin eru seld. Þá hafa dönsk stjórnvöld bent á að ávinningurinn af því að gera opinber kortagögn gjaldfrjáls sé margfaldur fyrir samfélagið. Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra steig mikilvægt skref fyrir Íslands hönd nú í upphafi árs þegar hún gerði öll stafræn gögn Landmælinga Íslands gjaldfrjáls. Markmið þeirrar ákvörðunar er m.a. að stuðla að nýsköpun hvort heldur er í einkageiranum eða opinberri þjónustu. Landmælingar hafa þegar gert gjaldfrjálsu gögnin aðgengileg til niðurhals (www.lmi.is). Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð og síðustu vikur hafa hundruðir notenda halað niður þúsundum skráa. Það er von Landmælinga að með gjaldfrjálsu og auknu aðgengi muni gögnin skapa ný og fjölbreytt verkefni, samfélaginu til hagsbóta.