Ísland leiðir samstarf kortastofnana á Norðurslóðum

Prashant Shukle forstjóri kortastofnunar Kanada og Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands

Undanfarin ár hafa kortastofnanir frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku (og Færeyjum), Grænlandi, Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada unnið að því að tengja saman kortagrunna sína  af Norðurheimskautinu, til að auðvelda aðgengi að þeim. Verkefnið, sem nefnist Arctic SDI, er unnið í nánu samstarfi við Norðurskautsráðið. Mikil þörf er fyrir góð kort og landupplýsingar á norðuslóðum þar sem miklar breytingar eiga sér nú stað á umhverfinu vegna loftslagsbreytinga.

Í dag þann 21. mars 2013 fer fram fundur í stjórn verkefnisins í Ottawa í Kanada. Fundinn sækir frá Íslandi Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands en hann er formaður stjórnar Arctic SDI verkefnisins. Landmælingar Íslands hafa verið leiðandi í verkefninu frá því að því var ýtt úr vör árið 2010, en það er ekki eingöngu tæknileg áskorun heldur þarf að tryggja góða samvinnu sérfræðinga í mismunandi löndum og tryggja sem best staðlaðar vinnuaðferðir. Á stjórnarfundinum í Ottawa verður farið yfir stöðu verkefnisins og næstu skref ákveðin en stutt er í að almennir notendur geti farið að nýta stafræn kortagögn af svæðinu og þjónustur þar að lútandi sem verða í boði. Til að fá einhverja mynd af umfangi þessa mikilvæga verkefnis þá þekja þau gögn sem það nær til 1/6 af yfirborði jarðarinnar.

Á myndinni má sjá þá Prashant Shukle forstjóra kortastofnunar Kanada og Magnús Guðmundsson forstjóra Landmælinga Íslands. Þeim sem vilja kynna sér verkefnið betur, er bent á heimasíðu þess Arctic SDI.