Landmælingar Íslands búa yfir einstöku safni loftmynda, sem í eru um 140.000 loftmyndir frá árinu 1937 til ársins 2000. Til eru myndir af öllu landinu teknar á mismunandi tímum og hafa þær ómetanlegt samanburðar- og heimildagildi. Elstu myndir safnsins, frá árunum 1937 til 1938 eru frá dönskum landmælingamönnum, einnig eru til myndir sem teknar voru á vegum Breta, Þjóðverja og Bandaríkjanna á tímum heimstyrjaldarinnar síðari. Nokkrir myndaflokkar til viðbótar frá erlendum aðilum eru í safninu en frá árinu 1950 tóku Landmælingar Íslands myndir næstum árlega. Flestar myndirnar eru svarthvítar en þó er nokkuð til af litmyndum. Safnið er vel skráð í sérstakri loftmyndaskrá.
Á undanförnum árum hafa starfsmenn Landmælinga Íslands unnið að því að koma loftmyndunum á stafrænt form og hefur hluti þeirra verið skannaður inn og komið fyrir á vef stofnunarinnar. Nú hefur aðgengi að loftmyndunum verið breytt og mun auðveldara ætti að vera fyrir notendur að finna þær myndir sem óskað er eftir. Eins og fyrr er hægt að velja svæði til að skoða en einnig hefur myndunum verið raðað upp eftir fluglínum og þannig hægt að velja myndir eftir fluglínum, tökuári og/eða svæði. Þá eru myndir sem ekki hefur verið komið á stafrænt form merktar óskannaðar.
Byrjað var að koma nýjustu myndunum á stafrænt form og eru flestar myndir sem ná frá árinu 1980 til ársins 2000 komnar á vefinn. Áfram verður unnið að skönnun loftmyndanna og þær birtarf á vefnum jafnóðum. Óski menn eftir myndum sem ekki eru komnar á vefinn er hægt að hafa samband við stofnunina og fá mynd skannaða gegn tímagjaldi sakmvæmt gjaldskrá Landmælinga Íslands.
Hægt er að skoða stafrænar loftmyndir Landmælinga Íslands með því að smella hér