Ný útgáfa IS 50V komin út

Ný uppfærsla af IS 50V gagnagrunninum er komin út í útgáfu 3.0 og verður hann sendur áskrifendum á næstu vikum. IS 50V grunnurinn er líklega mest notaði kortagrunnurinn á Íslandi í dag og byggjast vinsælir kortaflokkar, vefkort, kort í GPS, skipulagsuppdrættir o.fl. á þessum vinsæla grunni. Í IS 50V grunninum eru átta mismunandi gagnalög: hæðargögn, mannvirki, mörk, strandlína, samgöngur, vatnafar, örnefni og yfirborð. Í útgáfunni hafa hæðarlínur af um 40% landsins verið uppfærðar eða endurnýjaðar algerlega.

Einnig hefur vatnafar af stórum svæðum á Austurlandi og Snæfellsnesi verið uppfært. Þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar í samgöngulaginu, einkum þar sem nýir vegir hafa verið lagðir, og smærri uppfærslur í öðrum lögum. Útgáfu 3.0 fylgir hæðarlíkan og tvenns konar aukaefni, annars vegar gögn sem eru kölluð IS X 1.1 og hins vegar CORINE – flokkun landgerða. Í IS X 1.1 er skógalag sem kemur frá Skógrækt ríkisins; skurðalag sem var unnið í tengslum við CORINE-verkefnið og friðlýst svæði sem eru gögn frá Umhverfisstofnun. Aukaefnið fylgir þegar IS 50V gagnagrunnurinn er keyptur í heild sinni en þeir sem fá minni svæði geta leitað til Landmælinga Íslands ef þörf er fyrir aukaefnið. Hægt er að fá IS 50V í viðmiðun ISN93 og ISN2004 og eru gögnin á ArcGIS- eða dwg formati. Gögnunum fylgja einnig lýsigögn (metadata).

Leave a comment