Með lögum um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar nr. 44/2011 fengu Landmælingar Íslands (LMÍ) það hlutverk að leiða uppbyggingu á skipulagi landupplýsinga hins opinbera. Með grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar verður séð til þess að á auðveldan hátt geti almenningur, stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki fengið aðgang að landupplýsingum opinberra aðila og skoðað með lítilli fyrirhöfn. Lögin eru byggð á INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins, þar sem þörfin á auknum upplýsingum vegna ákvörðunartöku í umhverfismálum liggur að baki. Markmiðið með INSPIRE er að samnýta opinberar landupplýsingar í umhverfismálum með því að safna gögnunum, varðveita þau, koma skipulagi á þau og veita aðgang að þeim.
Til að auðvelda stofnunum Evrópusambandsins aðgengi að landupplýsingum var sett upp svonefnd INSPIRE gátt en inn í hana tengjast upplýsingar úr landupplýsingagáttum aðildaríkjanna (og EFTA). Nú nýlega var landupplýsingagátt okkar Íslendinga (http://gatt.lmi.is) tengd landupplýsingagátt Evrópusambandsins og því er nú hægt að finna lýsigögn íslenskra landupplýsingagagna ásamt þjónustu sem veitt er inni í henni. Hægt er að skoða landupplýsingagátt Evrópusambandsins með því að smella á slóðina http://inspire-geoportal.ec.europa.eu/