Landmælingum Íslands færð gömul kort

Axel Gústafsson gefur gömul kort

Fyrr í þessum mánuði var Landmælingum Íslands færð höfðingleg gjöf þegar Akurnesingurinn Axel Gústafsson færði stofnuninni gömul kort sem áður vour í eigu móðurafa og föðurafa hans. Um er að ræða sjókort sem voru í eigu föðurafa Axels, Einars Guðmundssonar skipstjóra, einnig landakort, sjókort og loftmynd sem voru í eigu Axels Sveinbjörnssonar, f.v. útgerðarmanns, móðurafa Axels.

Sjókortin sem eru af Norðursjónum og Kattegat eru öll stimpluð 20. október 1928. Landakortin voru gefin út árið 1950 en útgáfuár er ekki merkt á alheimskort sem fylgdi gjöfinni. Þá sést ekki hvenær loftmyndin, sem er af Kúagerði, var tekin.

Landmælingar Íslands kunna Axel Gústafssyni bestu þakkir fyrir gjöfina og munu sjá til þess að kortin verð varðveitt vel um ókomna tíð.

Meðfylgjandi mynd var tekin við afhendingu kortanna. F.v. Rannveig L. Benediktsdóttir, Axel Gústafsson, Gunnar H. Kristinsson, Magnús Guðmundsson, Eydís L. Finnbogadóttir. Mynd: Guðni Hannesson.