Hjá Landmælingum Íslands hefur erlent samstarf fengið aukið vægi á undanförnum árum. Ein af ástæðunum eru auknar kröfur um miðlun landupplýsinga um Ísland á alþjóðlegum vettvangi.
Í þessu samhengi er norrænt samstarf og samstarf kortastofnana á Norðurslóðum einkar mikilvægt bæði til að tengja saman gögn af stórum svæðum og til að fá aðgang að þekkingu og reynslu hjá systurstofnunum. Samstarfssamningur hefur verið milli Norðurlandanna í mörg ár og gildir hann um vinnuhópa um fagmál, samstarf á sviði landmælinga og reglulega fundi stjórnenda norrænna korta- og fasteignastofnana.
Arctic SDI verkefnið sem hefur það að markmiði að byggja upp samræmdan stafrænan kortagrunn af Norðurskautssvæðinu hefur verið starfrækt síðan 2008. Fyrir hönd Íslands taka Landmælingar Íslands þátt í verkefninu, en gert er ráð fyrir að kortagrunnirinn verði í framtíðinni aðgengilegur á netinu.
Landmælingar Íslands taka einnig virkan þátt í Evrópusamstarfi þar sem helst ber að nefna samtök Evrópskra korta- og fasteignastofnana EuroGeographics. Í samtökunum eru 46 Evrópulönd og innan þeirra er lögð mikil áhersla á miðlun þekkingar og að koma faglegum upplýsingum til stjórnvalda aðildarlandanna og til Evrópusambandsins. Þá taka Landmælingar Íslands þátt í Evrópuverkefnum s.s. eENVplus sem hefur það hlutverk að samþætta umhverfisupplýsingar frá stofnunum á sviði umhverfismála og gera þær aðgengilegar; CORINE sem er samevrópskt landflokkunarverkefni og heyrir undir COPERNICUS-áætlun ESB; HELM sem tengist samræmdri vöktun lands í Evrópu og síðast en ekki síst ber að nefna þróunarsjóð EFTA sem styrkir verkefni sem eiga að draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu í löndum Evrópusambandsins.
Að lokum má geta þess að í framhaldi af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um landupplýsingamál, sem haldin var í Suður Kóreu árið 2011, stóðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir opnun skrifstofu um alþjóðlegt samstarf á sviði landupplýsinga, UN-GGIM. Ástæða fyrir þessu alþjóðlega samstarfi er aukin tíðni náttúruhamfara og áfalla í heiminum, þar sem mikilvægt er að hafa aðgang að landupplýsingum, óháð landamærum ríkja. Landmælingar Íslands fylgjast vel með þeim verkefnum sem unnið er að á vegum UN-GGIM en á árinu 2013 var unnið að því að skipuleggja uppbyggingu samstarfsins í Evrópu.
Meðfylgjandi mynd sýnir undirritun samkomulags um kortamál á Norðurslóðum.