Landmælingar Íslands hafa frá árinu 2010 ráðið háskólanema til sumarstarfa á vegum Vinnumálastofnunar, sem í samstarfi við stjórnvöld hefur staðið fyrir átaki til að fjölga tímabundnum störfum fyrir atvinnuleitendur og námsmenn. Í sumar var ráðið í eitt starf og hefur Alexandra Björk Guðmundsdóttir háskólanemi starfað hjá stofnuninni frá 10. júní.
„Mig langaði til að vinna hjá Landmælingum Íslands og hafði látið mér detta í hug að sækja um vinnu hjá stofnuninni, en þar sem ég er ekki komin langt í námi þá lét ég ekki af því verða. Þegar ég sá svo auglýsingu á vef Vinnumálastofnunar þar sem Landmælingar Íslands auglýstu eftir sumarstarfsmanni, ákvað ég að sækja um starfið. Undanfarin sumur hef ég unnið við hrognavinnslu hjá Vigni Jónssyni og svo hef ég unnið í Norðanfiski, en langaði að breyta til.“
Alexandra nemur jarðfræði við Háskóla Íslands og hefur lokið einu ári af námi sínu. „Ég valdi jarðfræði af því mig langaði til að læra eitthvað sem tengdist náttúrunni. Ég hef mikinn áhuga á útivist og ferðalögum og held að jarðfræðin geti tengt áhugamál mín vel saman. Ég stefni á áframhaldandi nám að loknu B.S. prófi en hef ekki ákveðið enn hvað það verður. Námið í Háskóla Íslands hef ég stundað héðan frá Akranesi, við erum fimm nemendur sem keyrum saman daglega. Stundum er það svolítið púsluspil, þar sem stundarskráin er ekki eins hjá öllum og við þurfum öll að vera komin í skólann þegar sá sem byrjar fyrstur á morgnana á að mæta í tíma og getum ekki farið heim fyrr en sá síðasti er búinn. Þá er hægt að nota tímann til að læra, en vilji maður fara seinna suður eða fyrr heim er alltaf hægt að taka strætó.“
Fyrir utan áhuga á ferðalögum og útivist hefur Alexandra áhuga á ljósmyndun, en þessa dagana á fótboltinn hug hennar allan. „Ég er búin að æfa fótbolta síðan ég var sjö ára og spila núna með meistaraflokki kvenna hjá ÍA, í Pepsídeildinni. Við vorum í fyrstu deild í fyrra og komumst upp í úrvalsdeildina í hóp þeirra bestu.“
Aðspurð segir Alexandra að vinnan hjá Landmælingum Íslands hafi verið fjölbreytt og skemmtileg, „ég hef verið að flokka hluti og taka til í geymslum, en núna er ég aðallega að vinna við að skrá örnefni inn í örnefnagrunn og hef notið leiðsagnar sérfræðinga stofnunarinnar við þá vinnu. Einnig hef ég fengið smá innsýn í skönnun loftmynda og svo fylgist ég með því að gögn úr GPS jarðstöðvum sem mæla staðsetningar í rauntíma skili sér til notenda. Ég verð við vinnu hér þangað til í byrjun ágúst en í haust tekur við áframhaldandi nám í Háskóla Íslands.“