Mælingar sumarsins 2014

Landmælingar Íslands hafa að venju unnið að mælingum á hæðarkerfi stofnunarinnar í sumar. Að þessu sinni var ákveðið að leggja áherslu á GNSS mælingar í Landshæðarkerfinu ISH2004 og eru mælingarnar liður í því að vakta ISH2004, enda segir í reglugerð að mæla skuli GNSS mælda punkta í landshæðarnetinu á a.m.k. 10 ára fresti. Farnar voru fjórar mæliferðir í samvinnu við Vegagerðina, tvær í júní og tvær í ágúst. Í  fyrstu ferðinni var mælt frá Orustuhól að Hellu auk þess sem mælt var frá Skeiðarvegmótum að Hrauneyjum. Í annarri ferðinni var mælt milli Mývatns og Húsavíkur og í þriðju ferðinni var mælt yfir Fjallabaksleið nyrðri. Þá var í fjórðu ferðinni mælt frá Hrauneyjum yfir Sprengisand og norður í Bárðardal. Alls voru mældir  yfir 80 punktar sem ná yfir um 600 km af mælilínum. Þessi svæði voru valin vegna þess að þau eru á jarðfræðilega virkum stöðum eða liggja nærri þeim. Áður var mælt á þessum slóðum á árunum 2001-2005 og verður fróðlegt að sjá hversu miklar breytingar hafa átt sér stað síðan þá.

Meðfylgjandi mynd er tekin á Háumýrum á Sprengisandi af Guðmundi Valssyni.