Á dögunum voru Landmælingum Íslands afhentar hnitsettar örnefnaskráningar um 3000 örnefna í austurhluta Skaftárhrepps, nánar tiltekið gamla Hörgslandshreppi. Skráningin var unnin af Kirkjubæjarstofu að frumkvæði Búnaðarfélags Hörgslandshrepps og nefndist verkefnið Örnefnaarfur – Rafræn skráning. Verkefnavinnan samanstóð aðallega af öflun heimilda hjá bændum og staðkunnugum íbúum á svæðinu og skráningu þeirra, en vinnan hefur staðið yfir með hléum frá árinu 2000.
Ljóst er að miklum menningarverðmætum hefur verið bjargað á þessum árum en ritaðar lýsingar á staðsetningu duga skammt öðrum en staðkunnugum. Er því mjög mikilvægt að nýta staðþekkingu þeirra sem eldri eru og þekkja landið vel.