Nýjasta Landsat gervitunglið, nr. 8, er í umsjá Bandarísku jarðfræðistofnunarinnar og NASA. Því var skotið á loft nýlega eða 11. febrúar 2013 og hefur þegar sent til jarðar verulegt magn mynda, meðal annars af Íslandi. Þótt skýjahula hafi verið ríkjandi yfir landinu síðustu tvö sumur hefur engu að síður tekist að afla ágætra mynda með þessu tungli. Því var ráðist í að setja saman mósaikmynd af Íslandi með Landsat 8 myndum eins og hér sést. Kostir Landsat 8 gervitunglsins eru m.a. stærð mynda, en hver mynd er 185 x 180 km og þekur því um 33.000 km2. Greinihæfni þessara mynda er mest 15 m. Þá eru myndirnar fjölrása með alls 11 bönd þar sem hvert band nemur ákveðnar bylgjulendir sem endurspegla vissa eiginleika landyfirborðsins, t.d. gróður, vatn osfrv. Á nýja mósaikinu af Íslandi má m.a. sjá eldgosið í Holuhrauni, en sú mynd var tekin 6. september 2014. Myndirnar sem notast var við voru nær allar teknar í ágúst og september árin 2013 og 2014, flestar reyndar á árinu 2014. Augljóst er að mikll snjór var á fjalllendi Vestfjarða, Mið-Norðurlands og á Austfjörðum bæði þessi sumur. Landsat myndir þykja hentugar til að greina landyfirborð, svo sem rýrnun jökla og breytingar á gróðurlendi.
Landmælingar settu saman heildarmynd fyrir allt Ísland með fjarkönnunargögnum frá gervitunglum á borð við Landsat árið 1995. Sú mynd byggðist á gögnum sem safnað var á 7 ára tímabili, þ.e. 1986-1992. Greinihæfni þeirra mynda var 30 m.
[button link=“http://atlas.lmi.is/landsat8/“ color=“default“ target=“_self“ size=“small“]Landsat8 Kortasjá[/button] [button link=“http://atlas.lmi.is/getfile/opingogn.php?id=Landsat_mosaik“ color=“default“ target=“_self“ size=“small“]Hlaða niður (ca 1,5 GB)[/button] [button link=“http://landsat.usgs.gov/landsat8.php“ color=“default“ target=“_self“ size=“small“]Nánar um Landsat8[/button]
WMS þjónusta: http://gis.lmi.is/geoserver/wms? (layername: Landsat8_mosaic_2014_5000dpi1) – (Til að nota WMS þarf að notast við Landupplýsingakerfi)