Er Ísland að stækka eða minnka ?

Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur mikið verið rætt um nýjar mælingar á flatarmáli og strandlínu Íslands. Því miður hefur umfjöllunin einkennst af nokkrum rangfærslum og misskilningi sem rétt er að leiðrétta. Fyrir það fyrsta þá hefur því verið haldið fram að samkvæmt upplýsingum Landmælinga Íslands sé flatarmál landsins 103.000 km2. Sú tala er einungis námundun á flatarmál landsins og það flatarmál sem notað hefur verið í kennslubókum og tölfræði um áratuga skeið.

Öll gögn Landmælinga Íslands eru aðgengileg og ókeypis á vef stofnunarinnar (www.lmi.is). Strandlína IS 50V gagnagrunns stofnunarinnar hefur verið notuð af fyrirtækinu Loftmyndum ehf.  til að sýna fram á misræmi við loftmyndir/strandlínu fyrirtækisins. Með því að skoða þau sömu gögn þ.e. IS 50V, er á einfaldan hátt hægt að sjá að flatarmál Íslands er 102.592 km2 og hefur landið því stækkað skv. nýjustu tölum Loftmynda ehf. en ekki minnkað eins haldið hefur verið fram í fjölmiðlum undanfarið.

Uppruni strandlínu Landmælinga Íslands í gagnagrunninum IS 50V er af gervitunglamyndum frá árinu 2002 og síðar og miðast strandlínan við hæstu sjávarstöðu. Það gæti útskýrt mun á flatarmáli þeirra gagna og annarra gagna. Órökstuddar fullyrðingar um að strandlína Landmælinga Íslands byggi á misgömlum og ónákvæmum gögnum á því ekki við rök að styðjast. Það er hins vegar ágætt að benda á að nauðsynlegt er að tilgreina við hvað mæling á strandlínu miðast, s.s. hæstu sjávarstöðu, meðalsjávarhæð eða stórstraumsfjöru. Það er a.m.k. ljóst að ekki er nóg að miða hana við stöðu sjávar eins og hún er á loftmynd hverju sinni.

Samkvæmt þeim gervitunglagögnum sem Landmælingar Íslands hafa notað er strandlína Íslands um 6.087 km löng, á algengasta ferðakorti af Íslandi er lengdin um 5.344 km og samkvæmt nýjum gögnum Loftmynda ehf. er þá lengdin 6.542,4 km. Öllum ætti þó að vera ljóst að lengd strandlínu er í raun háð aðferðinni við mælinguna og mælikvarðanum. Tæki einhver sig t.d. til og færi með málband eftir strandlínunni í kringum hvern stein sem liggur í flæðamálinu væri strandlínan miklu lengri. Kortagerð er alltaf einföldun á raunveruleikanum sem byggir á mismunandi gögnum og vinnuaðferðum og gæti rétt lengd strandlínu því alveg eins verið 1.000 km, 10.000 km eða 20.000 km.

Óskandi væri að að umræða um landupplýsingar og kortagerð á Íslandi byggi á faglegri forsendum en svo, að stöðugt sé verið að slá upp tölum um nýjar hæðir fjalla eða stækkun/minnkun lands þegar ljóst er að í síbreytilegri náttúru Íslands er enginn einn sannleikur og engin ein rétt mæling.

 

Landmælingar Íslands
Akranesi 26. febrúar 2015