Stjórnendur norrænna kortastofnana funduðu á Akureyri

Norrænt samstarf á sviði landupplýsinga er okkur Íslendingum mikilvægt. Til að marka stefnuna og forgangsraða verkefnum hittast helstu stjórnendur norrænu kortastofnananna einu sinni á ári. Að þessu sinni var fundurinn haldinn á Akureyri dagana 30. ágúst – 2. september 2009. Landmælingar Íslands og Fasteignaskrá Íslands buðu sameiginlega til fundarins að þessu sinni og tóku þátt í honum um 35 manns frá öllum Norðurlöndunum.

 Fyrir fundinum lágu ýmis málefni en að þessu sinni voru m.a. miklar umræður um Inspire tilskipun Evrópusambandsins og skipulag kortamála á heimskautasvæðinu en í þessum verkefnum hefur verið mjög gott samstarf norrænna kortastofnana. Einnig voru miklar umræður um menntamál, en víða á Norðurlöndunum er farið að bera á skorti á sérfræðingum á sviði landupplýsinga. Miðað við þá góðu reynslu sem hefur fengist af sameiginlegri vinnu norrænu kortastofnananna í gegnum tíðina má þó gera ráð fyrir að það takist að hrinda af stað átaki til þess að snúa þeirri þróun við. Næsti fundur norrænu kortastofnananna verður í Færeyjum í lok ágúst 2010.

Leave a comment