Breytingar á landgerðum og landnotkun á Íslandi 2006 – 2012
Niðurstöður CORINE-flokkunar hjá Landmælingum Íslands
CORINE-flokkunin
CORINE (CORINE: Coordination of Information on the Environment, eða á íslensku: Samræming Umhverfisupplýsinga) er samevrópskt landflokkunarverkefni sem felur í sér kortlagningu á landgerðum og landnotkun í Evrópu með gervitunglamyndum. Flokkunin er endurtekin eða uppfærð á nokkurra ára fresti samkvæmt ákveðnum reglum en megintilgangur hennar er að afla sambærilegra umhverfisupplýsinga fyrir öll lönd Evrópu og fylgjast með breytingum sem verða á landnotkun í álfunni með tímanum. Fyrsta CORINE- flokkunin var gerð uppúr 1990 og var hún síðan uppfærð í fyrsta skipti árið 2000 (CORINE Land Cover 2000, eða CLC2000) en önnur og þriðja uppfærsla vorumiðaðarvið 2006 (CLC2006) og 2012 (CLC2012).
CORINE heyrir nú undir Copernicusar-áætlun ESB og er ásamt öðrum verkefnum sem snúa að umhverfisvöktun með gervitunglum í álfunni stjórnað af Umhverfisstofnun Evrópu, EEA, sem Ísland er fullgildur aðili að. CORINE er unnið í hverju aðildarlandi fyrir sig og útvegar EEA nýjar gervitunglamyndir til verksins í hvert sinn sem breytingar eru kortlagðar. CORINE landflokkunin á Íslandi fer fram hjá Landmælingum Íslands og í lok seinasta árs var lokið við að kortleggja þær breytingar sem urðu milli 2006 og 2012. Umfang verkefnisins (ásamt hliðarverkefnum sem fela í sér nákvæmari kortlagningu á nokkrum yfirborðsgerðum, s.s. skógum, graslendi og votlendi) er rúmlega 3 mannár og greiðir EEA mestan hluta kostnaðarins við vinnuna auk þess að útvega nýjar gervitunglamyndir verkefninu að kostnaðarlausu.
Þótt CORINE-verkefnið sé unnið með hjálp nýrra gervitunglamynda hjá Landmælingum Íslands koma fleiri innlendar stofnanir að verkefninu með því að útvega nauðsynleg gögn og upplýsingar. Helstar þeirra eru Veðurstofan, Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskólinn, Landgræðslan, Landsvirkjun og Háskóli Íslands.
Flokkunarreglur
CORINE flokkunarvinnan fer eftir ákveðnum reglum. Mikilvægustu stærðir í tengslum við flokkunina eru eftirfarandi:
- Mælikvarði CORINE-flokkunarinnar er 1:100 000 (1 cm á korti samsvarar 1 km)
- Kortlagningin fer fram með notkun gervitunglamynda. Mismunandi landgerðir þurfa að vera sýnilegar á gervitunglamynd með 20 m greinihæfni.
- Minnstu kortlögðu landgerðir eru 25 hektarar (d. 500 m x 500 m).
- Minnstu kortlögðu breytingar eru 5 ha.
- Stigskipt flokkunarkerfi í þremur þrepum: 5 grunnflokkar skiptast í 15 milliflokka sem greinast í 44 mismunandi landgerðir. Af þessum 44 landgerðum finnast 32 hér á landi.
Grunnflokkarnir fimm í CORINE-verkefninu eru:
- manngerð svæði
- landbúnaðarland
- skógar og önnur náttúruleg svæði
- votlendi
- vötn og höf.
Ísland í samanburði við önnur Evrópulönd
Það hefur lengi verið vitað að náttúrufar á Íslandi er ólíkt því sem er í öðrum löndum Evrópu en með CORINE-flokkuninni liggja í fyrsta skipti fyrir tölulegar upplýsingar um það hvernig þessum mun er háttað og hversu mikill hann er varðandi einstakar landgerðir. Samkvæmt niðurstöðum CORINE-flokkunarinnar sker Ísland sig að flestu leyti úr í samanburði við önnur Evrópulönd.
Í CORINE eru skógar taldir með í grunnflokki 3 og þótt skógar á Íslandi séu litlir er þessi grunnflokkur sá langstærsti hér á landi eða 87% af flatarmáli landsins. Ef votlendi er talið með „náttúrulegum“ svæðum þekja þessi svæði rúmlega 98.000 km2 eða 95% af öllu flatarmáli landsins. Að þessu leyti er Ísland einstakt meðal Evrópulanda.
Fjórar stærstu landgerðir á Íslandi eru 1) Mólendi mosi og kjarr (34% af heildarflatarmáli landsins), 2) Ógróið land (26%), 3) Lítt gróið land (13%) og 4) Jöklar (10%). Þessar landgerðir tilheyra allar grunnflokki 3 „Skógar og önnur náttúruleg svæði“ en fimmta algengasta landgerðin er votlendi með 6,4% af flatarmálsins. Svo hátt hlutfall votlendis er mjög sjalgæft annars staðar í Evrópu.
Samkvæmt reglum CORINE-flokkunarinnar er landbúnaðarland ekki nema 2,5% og skógar ásamt skógræktarsvæðum 0,7% af flatarmáli Íslands en þessir flokkar eru að jafnaði langstærstu landgerðir í öllum öðrum Evrópulöndum.
Breytingar á landgerðum og landnotkun á Íslandi 2006 – 2012
Landgerðabreytingar 2006 – 2012 hér á landi voru með mjög svipuðum hætti og næstu 6 ár þar á undan, 2000 – 2006. Jöklar halda áfram að minnka, jökulár flæmast til á söndum, einkum sunnan og norðan Vatnajökuls og land fer undir skógrækt, þéttbýli og ræktun. Óvenjuleg breyting á landnotkun verður með tilkomu Hálslóns sem færði yfir 60 km2 lands í kaf. Helstu breytingarnar voru eftirfarandi:
Jöklar og ógróið land. Jöklar landsins minnkuðu um 267 km2 eða 2,42% milli 2006 og 2012. Minnkun jöklanna er mun hraðari en 2000 – 2006 þegar hún var 180 km2 (1,62%). Við bráðnunina stækkar ógróið land sem henni nemur.
Jökulár og sandar. Jökulár á Íslandi eru ekki bundnar við ákveðna farvegi þar sem þær renna á sléttum söndum heldur flæmast þær um sandana framan við jöklana og skipta stöðugt um farveg. Vegna þessa eru ákveðin svæði ýmist ár eða sandar eftir því hvenær kortlagningin fer fram án þess að flatarmál sandanna eða ánna breytist í sjálfu sér mikið þegar til lengri tíma er litið. Milli 2006 og 2012 stækkuðu ógrónir sandar um 99 km2 en ár minnkuðu alls um 59 km2. Ástæðan fyrir því að flatarmál sandanna stækkar svo miklu meira en árnar minnka er að hluta til sú að árnar breiddu ekki eins mikið úr sér á gervitunglamyndunum frá 2012 eins og myndunum frá 2006 (minna vatn í ánum), en einnig vegna þess að Jökulsá á Dal var virkjuð á tímabilinu og rennur nú í Lagarfljót. Þar með varð fyrrverandi farvegur árinnar á láglendi norðan hringvegarins nánast vatnslaus og flokkast nú sem sandur.
Stöðuvötn og lón. Heildarflatarmál vatna á Íslandi stækkaði um 76 km2 (eða 6%) milli 2006 og 2012. Ástæða þess eru þrjú ný lón Kárahnjúkavirkjunar norðan Vatnajökuls. Stærsta lónið, Hálslón, er 62 km2 og er núna þriðja stærsta vatn landsins.
Skógar og skógræktarsvæði. Skógar á Íslandi eru óverulegir miðað við skóga í öðrum Evrópulöndum en stækka hratt vegna átaks í skógrækt á seinustu áratugum. Barrskógar stækkuðu um 3% milli 2006 og 2012 og skógræktarsvæði um 6%.
Vegir. Allir vegir (ásamt helgunarsvæðum) á Íslandi eru of mjóir til þess að vera kortlagðir í CORINE-flokkuninni (mjóstu kortlögðu fyrirbæri: 100 m). Þó þykir rétt að kortleggja þá vegi sem hafa tvær akreinar í hvora átt. Í CLC2000 voru engir vegir, í CLC2006 voru þeir samtals 1,64 km2 og 2,85 km2 í CLC2012 og liggja allir út frá Reykjavík. Þetta er stækkun om 74%.
Byggingasvæði. Miklar byggingaframkvæmdir einkenndu seinustu árin fyrir hrun þegar heil íbúða og iðnaðarhverfi voru að byggjast upp. Á allra seinustu árum hefur byggingaiðnaðurinn aftur tekið við sér og hverfi sem voru í byggingu árið 2006 eru nú fullkláruð. Milli 2006 og 2012 minnkuðu byggingasvæði um 10 km2 eða 49%!
Iðnaðar- og verslunarsvæði. Áhugavert er að þessi landgerð minnkar lítillega milli 2006 og 2012 (0,76 km2). Ástæðan er einkum lokun kísilgúrvinnslunnar við Mývatn.
Flatarmál landsins. Flatarmá Íslands er ekki fasti heldur breytist það í sífellu. Samkvæmt þeim reglum sem um CORINE-flokkunina gilda stækkaði flatarmál Íslands um 4,4 km2 milli 2000 og 2006 og um 4 km2 til viðbótar 2006 – 2012. Þessar breytingar eru aðvitað ekki til frambúðar og eru einkum háðar misjöfnu magni framburðar jökulánna.
Út er komin lokaskýrsla verkefnisins á ensku, en ítarleg skýrsla um CLC2012 á íslensku er væntanleg síðar á árinu.