Fundur Sameinuðu þjóðanna um aukna notkun tölfræði- og landupplýsinga

Dagana 4. – 7. ágúst 2015 var haldinn í New York, fundur á vegum Sameinuðu þjóðanna  um alþjóðlegt samstarf til að auka og bæta notkun landupplýsinga og tölfræðiupplýsinga. Þetta er í annað sinn sem slíkur fundur er haldinn en samstarf á þessu sviði og nafn nýrrar skrifstofu samstarfsins er UN-GGIM (United Nations initiative on Global Geospatial Information Management).

Samstarf það sem hér um ræðir á rætur sínar að rekja til ráðstefnu um landupplýsingamál sem haldin var á vegum Sameinuðu þjóðanna í Suður Kóreu árið 2011. Á þeirri ráðstefnu var fjallað um aukna þörf á alþjóðlegu samstarfi á sviði landupplýsinga, vegna aukinnar tíðni náttúruhamfara og annarra hörmunga, þar sem mikilvægt er að hafa aðgang að góðum kortum og landupplýsingum óháð landamærum ríkja.

Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands á fundi UN-GGIM í New York.
Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands á fundi UN-GGIM í New York.

Fundinn í New York sóttu fulltrúar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og voru flestir þeirra stjórnendur kortastofnana eða hagstofa viðkomandi landa. Helstu niðurstöður fundarins voru þær að landupplýsingar geta skipt miklu máli til að takast á við náttúruhamfarir og áföll í heiminum einnig þegar aðgerðir til að bregðast við loftlagsbreytingum eru skipulagðar. Þá er talið mjög mikilvægt að ný samþykkt markmið Sameinuðu þjóðanna, m.a. til að sporna við fátækt og stórbæta lífsgæði allra jarðarbúa, séu studd með notkun landupplýsinga og korta með margvíslegum hætti.

Á fundinum voru samþykktar 17 ályktanir byggðar á starfi vinnuhópa um ýmis atriði sem snúa að skipulagi GGIM og uppbyggingu þekkingar og þróunar á verkefninu. Sérstök ályktun var borin upp um  mikilvægi  Arctic SDI samstarfsins og vísað í hana í ályktun GGIM.

Mikil samstaða var um það á fundinum að róa að því öllum árum að GGIM verkefnið fái sérstaka fjárveitingu innan Sameinuðu þjóðanna sem verði til umfjöllunar í janúar 2016. Fulltrúi Íslands á fundinum í New York var Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands, en næsti fundur verkefnisins verður haldinn í new York í byrjun ágúst 2016.

Í myndbandi UN-GGIM segir meðal annars að „landfræðilegar upplýsingar segi okkur HVAÐ sé að gerast, hvenær og hvar.“