Landmælingar Íslands hafa um árabil notað rafræna skjalavistunarkerfið GoPro til að skrá og halda utan um skjöl og upplýsingar stofnunarinnar auk þess að nýta hugbúnaðinn í verkefnisstjórnun. Samkvæmt lögum ber opinberum stofnunum og ráðuneytum að afhenda öll skjöl til Þjóðskjalasafns Íslands og hefur fram til þessa þurft að prenta þau á pappír. Til þess að gera Landmælingum Íslands kleift að skila rafrænum skjölum til Þjóðskjalasafns hefur nú verið undirritaður samningur við Hugvit hf. um rafræna skilalausn, sem er viðbót við GoPro skjalavistunarkerfið. Þessu mikilvæga skrefi á eftir að fylgja hagræðing sem felst í minni prentkostnaði og vinnu við frágang skjala. Landmælingar Íslands hafa einnig aðlagað starfsemi sína að Grænum skrefum í ríkisrekstri, en þar er m.a. markmiðið að gera starfsemi ríkisins umhverfisvænni og draga úr rekstrarkostnaði. Með rafrænum skilum til Þjóðskjalasafns eru mikilvæg Græn skref tekin hjá Landmælingum Íslands. Á heimasíðu Hugvits má nálgast nánari upplýsingar um skilalausnina.
Meðfylgjandi mynd er tekin við undirritun samningsins. F.v. Steinunn Aradóttir, Þóroddur Bjarnason og Magnús Guðmundsson.
Ljósmynd: Guðni Hannesson.