Eins og undanfarin ár þá kom út ný uppfærsla af IS 50V gagnagrunninum á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Um er að ræða uppfærslu á örnefnum, mannvirkjum, mörkum og samgöngum og eru gögnin aðgengileg á niðurhalssíðu Landmælinga Íslands og eru þau og notkun þeirra að sjálfsögðu gjaldfrjáls. Breytingar er mismiklar eftir lögum en flestar breytingar eru í örnefnalaginu, þar sem mikil og stöðug vinna fer fram við hnitsetningu. Skráning örnefna hefur aðallega farið fram á svæðum í Borgarbyggð, Grundarfjarðarbæ, Dalabyggð, Strandabyggð, Eyjafjarðarsveit, Þingeyjarsveit, Norðurþingi, Vopnafjarðarhreppi, Fjarðabyggð og Flóahreppi en á flestum stöðum er um að ræða mikla vinnu heimamanna og staðkunnugra. Einnig var áfram unnið í að breyta línum í fláka við ströndina. Breytingar og leiðréttingar voru gerðar í mannvirkjapunktalaginu. Réttir sem voru í punktalaginu voru færðar yfir í punktalagið í örnefnum. Í mannvirkjaflákalaginu hafa verið settar inn nýjar upplýsingar um íbúafjölda frá Hagstofu Íslands. Í markalaginu eru breytingar á sóttvarnaumdæmum, umdæmunum fækkar úr 8 í 7, (gildistaka 13.04.2015). Einnig var farið yfir mörk sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og breyttist línulagið við það og einnig flest flákalögin. Flákalagið í samgöngulaginu er óbreytt en vegalagið breyttist aðeins, fáeinum nýjum vegum frá Vegagerðinni hefur verið bætt við og leiðréttingar hafa verið gerðar. Einnig hefur vegayfirborðið verið endurskoðað og eigindataflan yfirfarin en það eru t.d. alltaf einhverjar breytingar á vegnúmerum Hægt er að sjá lýsigögn um IS 50V í landupplýsingagátt Landmælinga Íslands.