Það er áhugavert að rýna niðurstöður könnunar um landupplýsingar sveitarfélaga og bera saman við niðurstöður svipaðrar könnunar sem var gerð meðal sveitarfélaga árið 2009, vegna innleiðingar INSPIRE.
Aðgengi að upplýsingum
Athygli vakti hversu erfiðlega gekk að ná til sveitarfélaganna og fá svar frá þeim við könnuninni. Í fyrri könnuninni tókst að ná til töluvert fleiri sveitarfélaga en núna. Í byrjun árs 2009 var fjöldi sveitarfélaga 78 og af þeim tóku 85% þátt, eða 66 sveitarfélög. Nú eru sveitarfélögin 74 og af þeim tóku 76% þátt, eða 56 sveitarfélög.
Aðgengi að loftmyndum
Spurt var um aðgang að loftmyndum, hvort viðkomandi sveitarfélag ætti loftmyndir og hefði fullan umráðarétt yfir þeim eða ætti EKKI loftmyndir en fengi aðgang hjá einkaaðilum. Niðurstöður sýna að sveitarfélög hafa nokkuð góðan aðgang að loftmyndum. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá 28 sveitarfélög sem leigja aðgang að loftmyndum í gegnum einkaaðila. Auk þess eiga 27 sveitarfélög í þétt- og dreifbýli loftmyndir, eins og sjá má á yfirliti í niðurstöðum könnunarinnar.
Þörf á landupplýsingum
Þátttakendum var boðið að slá inn frjálst svar við spurningu þess efnis hvaða landupplýsingagögn sveitarfélögin vantaði helst. 39 sveitarfélög skráðu þarfir sínar á móti 32 sveitarfélögum árið 2009. Núna nefndu einungis sex sveitarfélög að þau vantaði loftmyndir en níu gerðu það árið 2009 og var það algengasta svarið þá. Það má túlka sem svo að aðgengi sveitarfélaga að loftmyndum hafi aukist, sem styður við það sem áður var fjallað um.
Algengasta svarið núna við því hvaða landupplýsingar sveitarfélagið vantaði helst var jarða- og/eða lóðamörk og landamerki í dreifbýli. Mörk af þessu tagi voru nefnd 21 sinni en árið 2009 kom óskin um lóða- og jarðamörk fram í sex svörum.