Nú í byrjun árs höfum við hjá LMÍ tekið þýðingu landupplýsingagáttarinnar traustataki og ætlum okkur að vera komin langleiðina með að klára þýðinguna fyrir vormánuði. Ekki er sopið þó í ausuna sé komið er máltæki sem vel á við því vel yfir 3.500 textastrengi þarf að þýða og ekki eru til viðunandi þýðingar á mörgum ensku tækniorðunum og verðum við því að vera dálítið frjó í hugsun, leita vítt og breytt að þýðingum og jafnvel nýorðasmíðum. Flestir í landupplýsingageiranum eru með ensku sem „tæknimóðurmál“ og eiga í litlum vandræðum með að skilja orð og orðasambönd eins og t.d. „Input Parameter“. Sé fólk hins vegar innt eftir hvað „ílagsstiki“ sé gæti orðið fátt um svör. Sem samfélag fagfólks í landupplýsingum er það okkar hlutverk að innleiða íslenska orðanotkun á sviðinu, samþykkja eða hafna notkun orða og jafnvel koma með nýyrði eða stinga upp á endurvinnslu eldri orða.
Við munum uppfæra þýðingarnar á gáttinni vikulega þar til verkið klárast. Margar þýðinganna í gáttinni geta verið óþjálar en aðrar venjast furðufljótt og viljum við endilega fá viðbrögð ykkar við þeim sem þið hafið sterkar skoðanir á, hvort heldur sem er af góðu eða slæmu. Einnig höfum við áhuga á öllum öðrum ábendingum varðandi gáttina og grunngerð landupplýsinga. Allar ábendingar og spurningar skulu berast Eydísi Líndal, sviðsstjóra LMÍ á elf @ lmi.is.