Á árinu 2014 var Grænum skrefum í ríkisrekstri hleypt af stokkunum. Með innleiðingu þeirra er unnið að eflingu á vistvænum rekstri ríkisins með kerfisbundnum hætti. Aðgerðir Grænna skrefa hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi og draga úr rekstrarkostnaði.
Landmælingar Íslands hófu innleiðingu Grænna skrefa haustið 2014 og luku henni síðastliðið vor á 60 ára afmæli stofnunarinnar. Markviss vinna hefur farið fram við að draga úr rekstrarkostnaði, umhverfisáhrifum og viðhalda virkri umhverfisstjórnun. Stefnu um vistvæn innkaup er fylgt eftir, einnig markmiðum í umhverfismálum sem fylgt er eftir í sérstakri framkvæmdaáætlun.
Innleiðing Grænna skrefa hefur aukið umhverfisvitund starfsmanna og gætir m.a. við innkaup, notkun, flokkun og förgun. Í nýjasta fréttabréfi Grænna skrefa er tekið dæmi um vel úthugsaðan viðburð þar sem börnum í 60 ára afmæli Landmælinga Íslands var boðið upp á kleinur í lausu og djús í margnota glösum í stað ferna. Er það eitt lítið dæmi um þær breytingar sem innleiðing Grænna skrefa hefur haft í för með sér.